afmaeli formlÞað var fjölmenni á Laugarvatni í gær þegar við slógum upp afmælisfagnaði. Það var ekki ský á himni, en því verður nú ekki neitað, að það var heldur svalt. Svalinn kom þó ekki í veg fyrir að ML-ingar framkvæmdu flest það, utandyra, sem fyrirhugað hafði verið: það fór fram kraftakeppni, nýr útiblakvöllur var tekinn í notkun með leik þar sem beitt var frjálsri aðferð við að fara eftir reglum og það var glímt.

Frá því klukkan 8:30 og fram til 10 sátu gestgjafarnir og gestir, sem þá þegar lögðu leið sína til okkar, að árbít. Eftir hann dreifðist fólkið um 5 stofur þar sem sýnt var myndefni af ýmsu tagi, gamalt og nýtt. Þessar myndasýningar stóðu síðan yfir allan daginn.  Upp úr kl. 10 komu góðir nágrannar færandi gjafir, en þar voru á ferð börn úr Bláskógaskóla á Laugarvatni. Þau sungu afmælissönginn fyrir skólann og afhentu skólameistara síðan gjafir sínar með formlegum hætti.

 

Frú Vigdís Finnbogadóttir renndi í hlað um hádegisbil, ásamt Árna Bergmann, en hann var fyrstur til að vera útskrifaður frá skólanum. Þau voru nokkurs konar heiðursgestir á afmælishátíðinni og fluttu bæði skemmtileg ávörp. Frú Vigdísi var boðið til hátíðarinnar að tillögu nemenda, en að öðru leyti var öllum gömlum nemendum, starfsmönnum og velunnurum boðið með það að auglýsa í sunnlenskum blöðum, og á nútíma samskiptamiðlum. Auk ávarpa skólameistara, heiðursgestanna tveggja og formanns skólanefndar, Gunnars Þorgeirssonar, fluttu Magdalena Katrín Sveinsdóttir úr þriðja bekk og Teitur Sævarsson úr fyrsta bekk lag, skólasöngurinn var sunginn og veitt voru verðlaun í myndbandasamkeppni sem efnt hafði verið til. Framlagið sem sigraði var kynningarmyndband fyrir skólann, sem þeir Þorgeir Sigurðsson og Guðmundur Snæbjörnsson, báðir úr fjórða bekk, stóðu að. Þeir félagar hlutu einnig önnur verðlaun, en þriðju verðlaun hlutu þær Jóna Ástudóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Kristín Eva Einarsdóttir allar úr þriðja bekk. Sigurmyndbandið var síðan sýnt við mikinn fögnuð. Formlegri dagskrá lauk með því að Árni Bergmann skar væna sneið af risastórri afmælistertunni fyrir Frú Vigdísi. Það var Aðalbjörg Bragadóttir, kennari við skólann, sem stýrði athöfninni.

Að formlegheitunum loknum dreifðust gestirnir vítt og breitt um húsið, eftir að hafa gætt sér á fínustu veitingum sem starfsfólkið í eldhúsinu hafði töfrað fram undir stjórn Sveins Jónssonar, matreiðslumeistara.

Auk áðurnefndra myndbandasýninga, rifjuðu gamlir ML-ingar upp skólaárin, á göngum og í bókasafninu voru sýndir ýmsir gamlir munir, bækur og pappírar í eigu skólans, nemendur lásu úr sögu skólans, léku á hljóðfæri og tefldu.  Dagskrá afmælisdagsins lauk með því að stóri, góði kórinn okkar flutti nokkur lög undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur.

Já, þetta var ánægjulegur dagur fyrir margra þátta sakir:

Almenn þátttaka nemenda var eftirtektarverð, allt frá því ákveðið var að þeir settust niður ásamt starfsmönnum til að varpa fram hugmyndum að því hvernig 60 ára afmælis skólans skyldi minnst. Öll dagskrá dagsins tók síðan mið af hugmyndum sem þarna komu fram. Aðkoma nemenda að framkvæmdinni var þeim til mikils sóma og verður seint fullþakkaður. Þeir sýndu að skólinn skiptir þá miklu máli.

Starfsmenn skólans lögðu sig í líma við að undirbúningurinn og framkvæmdin yrðu til sóma. Stofnun sem hefur á að skipa starfsfólki sem er tilbúið að leggja á sig viðbótarvinnu þegar mikið liggur við, er vel sett. 

Gamlir ML-ingar sem heiðruðu skólann með því að undirbúa og fjalla um árin sín hér, sýndu með því einstaka tryggð við skólann. Fjölmargir gestir sem sóttu okkur heim og samfögnuðu: gamlir nemendur og starfsmenn, foreldarar núverandi nemenda og fyrrverandi og fólk sembara einfaldlega lætur sig skólann varða og vill sjá hag hans sem bestan.

Öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd eru færðar bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag. Öllum gestum eru færðar bestu þakkir fyrir komuna og hlýjuna í garð skólans. 

-pms

Hér má sjá myndir frá deginum og síðan koma fleiri seinna.