Menu

graenfaniafhentur

Grænfánaverkefnið í Menntaskólanum að Laugarvatni

 

Landvernd - Grænfánaverkefnið

Undanfarin 10 ár hefur Landvernd rekið verkefnið skólar á grænni  grein (e. Eco-Schools) þar sem sett eru fram sjö skref í átt að sjálfbærni. Þegar þau skref hafa verið stigin fá skólarnir að flagga Grænfánanum og í haust varð Menntaskólinn að Laugarvatni meðal þeirra skóla sem hlotið hafa þann heiður. Víða í Evrópu nýtur Grænfáninn mikillar virðingar sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum og reynslan þaðan sýnir, að skólar sem taka þátt í verkefninu geta hagrætt talsvert í rekstri. Markmið verkefnisins eru,  samkvæmt heimasíðu Landverndar
- Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku. 
- Efla samfélagskennd innan skólans.
- Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan. 
- Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
- Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál. 
- Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
- Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.
 
Undirbúningur að Grænfánanum hefur staðið síðan á haustönn 2007, þegar fyrsta skrefið í átt að Grænfána var stigið með því að stofna umhverfisnefnd við skólann. Þá var einnig ákveðið að skólinn myndi einbeita sér að sorpmálum og hafa markmiðið Grænfánaverkefnisins, sem áður er getið, í hávegum. Skrefin voru svo stigin eitt af öðru, en þau eru:
1. Umhverfisnefnd starfar við skólann.
Sú nefnd tók til starfa haustið 2007 og var Pálmi Hilmarsson fyrsti formaður nefndarinnar.
2. Staða umhverfismála metin.
Gátlisti af heimasíðu Landverndar var notaður til að meta stöðu skólans og kom fljótt í ljós að ýmislegt mátti bæta.
3. Áætlun um aðgerðir og markmið var sett fram.
Í framhaldi að matinu settum við okkur framtíðarmarkmið. Við höfðum í huga, að hafa markmiðin raunhæf og sértæk svo auðveldara væri að fylgja þeim eftir. Þessi markmið voru í upphafi að:
a) flokka rusl og moltugera matarleifar
b) skipta út ljósaperum fyrir sparperur
c) halda umhverfi innan- og utanhúss snyrtilegu
d) nota umhverfisvænar vörur
e) vera með virka fræðslu um umhverfismál
4. Eftirlit og endurmat.
Þessi þáttur er að sjálfsögðu alltaf við líði, nokkrum markmiðum hefur verið náð, önnur eru eilílfðarverkefni og enn önnur eru að þokast í rétta átt. Ný markmið verða sett fjótlega enda er Grænfáninn ekki einn áfangi heldur margir og þarf sífellt að halda stefnu hans á lofti
5. Námsefnisgerð og verkefni.
Í nýrri aðalnámskrá eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun og er sjálfbærni einn þeirra.  Í Grænfánaverkefninu er sjálfbærni hugtakið alltaf svífandi yfir öllu öðru, en enn frekar er lögð áhersla að auka þekkingu nemenda á því þema sem skólinn velur sér og allur skólinn skal taka mið að því verkefni sem er í okkar tilfelli að minnka úrgang og koma sem stærstum hluta hans í endurvinnslu. Mikið hefur áunnist í þeim efnum, en enn er margt sem við getum gert betur.
6. Að upplýsa og fá aðra með.
Með Grænfánann að vopni reynum við að hafa áhrif út á við, á sveitarstjórnir, fyrirtæki og samfélag í samræmi við Staðardagskrá 21. Við munum hafa samband við stofnanir í næsta nágrenni okkar, læra af reynslu þeirra og sérþekkingu.  Einnig að ýta á sveitastjórn svæðisins með ýmis mál, en í litlum samfélög eins og því sem við búum í getur rödd okkar haft mikil áhrif.
7. Umhverfissáttmáli. Skólinn setti fram umhverfisáttmála sinn vorið 2010 og er  hann er svohljóðandi:
 Menntaskólinn að Laugarvatni leggur áherslu á umhverfismál í víðu samhengi. Við allar ákvarðanir, framkvæmdir, daglegt starf og dvöl starfsmanna og nemenda í húsum skólans og umhverfi hans er tillit tekið til sjálfbærrar þróunar og umhverfissjónarmiða.  Áhersla er lögð á nemendur tileinki sér virðingu og þekkingu á umhverfi sínu og þeirri staðreynd að við erum tímabundið gestir á Hótel Jörð.
 

 

Nú þegar Grænfáninn blaktir við hún er haldið áfram, ný markmið verða sett og keppst við til að skólinn fái Grænfánann endurnýjaðan eftir tvö ár.  
 
Jóna Björk Jónsdóttir, formaður umhverfisnefndar.

Viltu senda inn athugasemd?

Er eitthvað sem þér finnst vanta á þessa síðu?

Sendu póst