Menu

Skólagerð

Skólastarfið byggir á fjórum hornsteinum, hvað námsskipulag varðar. Þeir eru brautir skólans, bekkir, einingakerfi og áfangaskipan.

Brautaskipting

Í skólanum eru tvær bóknámsbrautir til stúdentsprófs: Félags- og hugvísindabraut og Náttúruvísindabraut.

Bekkjakerfi

Hvor braut skiptist í bekki eftir námsárum. Nem­endur fylgja því sínum bekk í öllum námsgrein­um frá upphafi náms til loka.  

Nýir nemendur sem hafa lokið annars staðar hluta þess náms sem kennt er í þeirra bekk, geta sótt um að vera undanþegnir þeim greinum þar til þeir eru komnir á rétt ról.

Einingakerfi

Allt nám við skólann er mælt í einingum á sama hátt og í öðrum framhaldsskólum. Hver eining er talin jafngilda þriggja daga vinnu, hvað varðar tímasókn, próf og heimavinnu. Til stúdents­prófs eru 200 einingar, en það merkir að nem­endur ljúka um 66 einingum á hverju námsári eða 30-35 einingum á önn.

Grunnþættir námsins

Sú menntastefna sem birtist í Aðalnámskrá framhaldsskóla byggir á sex grunnþáttum námsins:

  • Læsi
  • Sjálfbærni
  • Heilbrigði og velferð
  • Lýðræði og mannréttindum
  • Jafnrétti
  • Sköpun

Þessir grunnþættir eru bæði einstaklingsmiðaðir og samfélagsmiðaðir  – einstaklingsmiðaðir að því leyti að markmiðið er að nemendur nái að þroska sig andlega og líkamlega, læri að bjarga sér og vinna með öðrum. Þeir eru einnig samfélagsmiðaðir þar sem þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði og að vinna að því samfélagið fái vel menntað og heilbrigt fólk sem vill hafa áhrif á samfélag sitt og breyta því til betri vegar

Í ML fléttast grunnþættirnir inn í allt skólastarfið, bæði nám og félagslíf. Allt skólastarf í ML byggir á skólasýninni og í skólasýninni eru allir grunnþættirnir dregnir fram. Í áfangalýsingum endurspeglast skólasýnin síðan. 

Áfangaskipan náms

Eins og í öðrum framhaldsskólum sem starfa skv. aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins skiptast námsgreinar allar í áfanga sem lokið er á einni eða tveimur önnum. Áfangar eru ýmist 1, 2 eða 5 einingar. Áföngum innan einstakra námsgreina er raðað í ákveðna röð, eftir því hvort þeir byggja hver á öðrum (krefjast undanfara) eða eru sjálfstæðir.

Áfanganúmer bera í sér ýmsar þessara upp­lýsingar. Þannig segir fyrsti tölustafur áfanga­númers til um hæfnisþrep, 1, 2 eða 3. Flestir áfanga í skólanum eru á 2. hæfnisþrepi.

ÍSLE2MR05

Bókstafirnir 4 vísa til námsgreinarinnar, sem í þessu tilviki er íslenska. Því næst er hæfnisþrepið tilgreint, sem er 2. þrep í þessu dæmi. Þá kom tveir bókstafir sem greina þennan áfanga frá öðum sambærilegum áföngum. Loks eru tveir tölustafir sem tilgreina einingafjölda. Áfanginn í dæminu er 5 einingar.