Menu

 

Skólagerð

 

Skólastarfið byggir á fjórum hornsteinum, hvað námsskipulag varðar. Þeir eru brautir skólans, bekkir, einingakerfi og áfangaskipan.

 

Brautaskipting

Í skólanum eru tvær bóknámsbrautir til stúdentsprófs: félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut.

Bekkjakerfi

Hvor braut skiptist í bekki eftir námsárum. Nem­endur fylgja því sínum bekk í öllum námsgrein­um frá upphafi náms til loka. Möguleikar eru þó á tilfærslu milli brauta í samráði við skólastjórn­endur. Einnig hefur afburðanemendum gefist kostur á að taka bekki utanskóla og hlaupa þannig yfir bekk í skólanum. Nýir nemendur sem hafa lokið annars staðar hluta þess náms sem kennt er í þeirra bekk, geta sótt um að vera undanþegnir þeim greinum þar til þeir eru komnir á rétt ról.

 

Einingakerfi

Allt nám við skólann er mælt í einingum á sama hátt og í öðrum framhaldsskólum. Hver eining er í kennslu talin jafngilda einni kennslustund á viku í 2 annir eða tveimur kennslustundum á viku í eina önn. Hver eining er einnig talin jafngilda um það bil einnar viku vinnu, hvað varðar tímasókn, próf og heimavinnu. Til stúdents­prófs eru 140 einingar, en það merkir að nem­endur ljúka um 35 einingum á hverju námsári eða 17-18 einingum á önn.

Áfangaskipan náms

Eins og í öðrum framhaldskólum sem starfa skv. aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins skiptast námsgreinar allar í áfanga sem lokið er á einni eða tveimur önnum. Áfangar eru ýmist 1, 2 eða 3 einingar. Áföngum innan einstakra námsgreina er raðað í ákveðna röð, eftir því hvort þeir byggja hver á öðrum (krefjast undanfara) eða eru sjálfstæðir.

 

Áfanganúmer bera í sér ýmsar þessara upp­lýsingar. Þannig segir fyrsti tölustafur áfanga­númers til um undanfara. Áfanganúmer sem hefst á 1, t.d.

 

STÆ 103

 

merkir að þar sé enginn undanfari. Hefjist númerið hins vegar á 2, þýðir það að undanfari sé að áfanganum og númer þess undanfara skuli hefjast á 1. Dæmi:

 

STÆ 203

 

Miðnúmer segir til um hvort um sé að ræða grunnáfanga í grein. Talan 0 merkir að svo sé, en sé talan t.d. 1 merkir hún að um sé að ræða hliðaráfanga, t.d.

 

STÆ 313

 

Aðrar miðtölur bera með sér fleiri upplýsingar um stöðu áfangans í kerfinu. Þannig merkir talan 7 að um valáfanga á vegum skóla sé að ræða, talan 9 að um foráfanga sé að ræða o.s.frv.

 

Þriðja talan segir til um hve margar einingar viðkomandi áfangi telji. Áfanganúmerið

 

STÆ 303

 

segir þannig að fyrir þennan áfanga fáist þrjár einingar.