Menu

FÉL 103

Í þessum byrjunaráfanga er fjallað um grunneiningar samfélagsins og þær skoðaðar frá sjónarhorni félagsvísinda. Fjallað er um samfélagið í ljósi þeirra áhrifa sem það hefur á einstaklinginn og líf hans. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á umhverfi sínu nær og fjær svo að þeir verði færir um að taka virkan þátt í samfélagslegum umræðum og mynda sér skoðanir á meðvitaðan og gagnrýninn hátt. Nemendur kynna sér félagslega þætti sem stýra hegðun og athöfnum einstaklingsins og keppt er að því að nemendur öðlist skilning á uppbyggingu og skipulagi eigin samfélags og annarra. Meginmarkmið áfangans er að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu á grunnþáttum íslenska samfélagsins og geti borið það saman við nokkur önnur samfélög nær og fjær. Sömuleiðis að nemandinn átti sig á því hvernig samfélagið hefur áhrif á hann og hvernig hann getur haft áhrif á samfélagið.

 

FÉL 203

Í þessum áfanga er fjallað um frumkvöðla félagsfræðinnar og kynntar helstu kenningar greinarinnar. Samfélagið er skoðað í ljósi mismunandi kenninga og nokkrar þekktar rannsóknir innan félagsvísinda skoðaðar. Farið er yfir vítt svið félagsfræðinnar og nemendur þjálfaðir í að beita félagsfræðilegu innsæi við túlkun á samfélagslegum málefnum. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist dýpri skilning á hugtökum sem kynnt eru í FÉL 103 og setji þau í fræðilegra samhengi. Fjallað er um frumkvöðla félagsfræðinnar, Comte, Durk-heim, Marx og Weber, og framlag þeirra til greinarinnar. Farið er í helstu kenningar, svo sem samvirkni-, samskipta- og átakakenningar. Fjallað um sjálfsmyndina og táknræn samskipti, m.a. út frá kenningum Goffmans. Nemendur læra um félagslega lagskiptingu, frávik, fjölmiðla og áhrif þeirra (þar á meðal Netsins), enn fremur kynhlutverk, og skoða þessi viðfangefni í ljósi ólíkra félagsfræðikenninga. Meginmarkmið áfangans er að nemandinn öðlist dýpri skilning á félagsfræðilegum hugtökum og kenningum og geti beitt þeim við túlkun og greiningu á samfélaginu, bæði almennt og á tiltekin viðfangsefni.

 

FÉL 303

Í áfanganum er stjórnmálafræðin kynnt sem fræðigrein. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist skilning á helstu hugtökum sem notuð eru í fræðigreininni. Nemendur læra að greina helstu hugmyndafræðistrauma stjórnmálanna. Þeir læra um einkenni og forsendur lýðræðis og hvað greini lýðræði frá einræðis- og alræðisstjórnarfari. Rakin er þróun íslenskra stjórnmála frá sjálfstæðisstjórnmálum til stéttastjórnmála og til þeirrar margbreytni sem nú einkennir íslensk stjórnmál. Nemendur meta þróun íslenskra stjórnmála út frá þeim hugtökum sem þeir læra og tengja sögu íslenskra stjórnmálaflokka við helstu hugmyndakerfin. Nemendur læra um þróun og hlutverk Alþingis, sögu og fylgisþróun stjórnmálaflokkanna og áhrif ólíkra hagsmunasamtaka í íslenskum stjórnmálum. Nemendur læra hvernig túlka má íslenska stjórnmálakerfið og stjórnmálaþátttöku út frá ólíkum kenningum. Nemendur skoðahlutverk fjölmiðla varðandi lýðræðisþróun og hvernig áhrifavaldar í stjórnmálum nota fjölmiðla, þar á meðal heimasíður á Netinu.

 

FÉL 403

Fjallað verður um eðli og tilgang vísinda og helstu rannsóknaraðferðir félagsvísinda í því ljósi. Þá verður rætt um kosti þeirra og galla. Bornar verða saman megindlegar og eigindlegar rannsóknir, tengsl þeirra við kenningar skoðuð og hvernig ólíkar aðferðir tengjast mismunandi sjónarmiðum um eðli þekkingar innan félagsfræðinnar. Rætt verður um aðferðafræðileg og siðferðileg vandamál tengd rannsóknum og sú umræða tengd gagnrýninni umfjöllun um niðurstöður rannsókna. Rannsóknarferlinu er lýst og fjallað um úrvinnslu, greiningu og kynningu gagna.

Meginmarkmið áfangans er að auka áhuga, þekkingu og skilning nemandans á rannsóknaraðferðum félagsfræðinnar til þess að hann verði fær um að meta, taka afstöðu til og fjalla á gagnrýninn hátt um rannsóknir félagsvísindamanna og beita þeim í nokkrum mæli.

 

UPP 103

Í þessum fyrsta áfanga í uppeldisfræði er lögð áhersla á kynningu á fræðigreininni uppeldis- og menntunarfræði. Fjallað er um rætur fræðigreinarinnar, sögu og hagnýtingu. Hugtakið uppeldi er tekið til umræðu og gildi uppeldis fyrir einstakling og samfélag. Mismunandi viðhorf til mannlegs eðlis eru skoðuð í ljósi mismunandi viðhorfa til uppeldis og menntunar. Lauslega er farið í þróun uppeldis og menntunar í Evrópu síðustu aldir. Nemendur kynnast hugmyndafræði og uppeldisaðferðum nokkurra þekktra uppeldisfræðinga sem hafa haft áhrif á uppeldis- og skólastarf í Evrópu. Þeirra á meðal eru Rousseau, Pestalozzi, Fröbel, Montessori og Dewey. Nemendur kynna sér þroskaferil barna/unglinga. Áherslur ákvarðast af kennara og nemendum en geta verið á þróun sjálfsins, vitsmuna-, siðgæðis- og félagsþroska barna og unglinga. Eftirfarandi uppeldissvið eru til umfjöllunar í þessum fyrsta áfanga: samskipti, leikir og listsköpun barna.

 

FJÖ 103

Í áfanganum er fjallað um fjölmiðla frá tilkomu fyrstu tímarita og dagblaða og fram til okkar daga. Fjallað er um félagsleg og stjórnmálaleg áhrif fjölmiðla og hvernig þau hafa breyst í gegnum tíðina. Kannað er forræði yfir fjölmiðlum, staða þeirra sem „fjórða valdsins" og hvaða ytri og innri þættir hafa áhrif á fréttamat þeirra og umfjöllunarefni. Fjallað er um hvern fjölmiðlaflokk fyrir sig, blöð og tímarit, ljósvakamiðla og netmiðla. Gerður er samanburður á eðli þessara miðla. Í áfanganum er fjallað um þróun fjölmiðla með tilkomu Netsins, hvernig fjölmiðlarnir virðast vera að renna saman í einn miðil. Einnig er velt upp spurningum um „ritstjóralausa" fjölmiðla, sjálfmiðlun og persónufjölmiðla.

 

KYN 103

Í áfanganum eru staða og hlutverk karla og kvenna ísamfélaginu skoðuð út frá kenningum félagsvísinda. Fjallað er rækilega um stöðukynjanna á ýmsum sviðum samfélagsins, svo sem innan fjölskyldunnar, ávinnumarkaði, í menntakerfinu, stjórnmálum, íþróttum, félagslífi, fjölmiðlumo.fl. Einnig um kynbundið ofbeldi og klámvæðingu. Leitast er við að svaraspurningum eins og: Hvernig er staða kynjanna ólík? Af hverju? Er þörf fyrirbreytingar? Nemendur kynnast kenningum og hugtökum kynjafræðinnar. Meðalmarkmiða áfangans er að vekja nemendur til meðvitundar um réttindi sín varðandijafnréttismál og að þeir þjálfist í að greina samfélagið með kynjagleraugum.Einnig verður fjallað um sögu jafnréttisbaráttunnar og það hvernig jafnréttismálvarða alla, nú sem fyrr.
Nám og kennsla fer fram með fyrirlestrum, fjölbreyttum hóp-og einsaklingsverkefnum, umræðum, gagnaleit og myndböndum. Umræður og þátttakanemenda er lykilatriði í öllu náminu. Lögð verður áhersla á að skoða kynja- ogjafnréttismál sem eru á döfinni hverju sinni t.d. í fjölmiðlum.

 

LAN 103

Í þessum áfanga er fjallað um landafræði sem fræðigrein, notagildi hennar og tengsl við aðrar fræðigreinar. Fjallað er um grunnhugtök lýðfræðinnar, íbúasamsetningu mismunandi þjóðfélagsgerða og vandamál er tengjast fólksfjölgun og breytingum á búsetumynstri og hverjar eru orsakir og afleiðingar fólksflutninga. Einnig er fjallað um gerð og byggingu jarðarinnar og þau öfl sem móta landið. Áhersla er lögð á verkefnavinnu. Nemendur munu vinna nokkur sérhæfð en fjölbreytt verkefni sem krefjast upplýsingaöflunar með margs konar miðlum úr fjölbreyttum heimildum.