Menu

ÍSL 103

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur treysti kunnáttu sína á öllum sviðum lestrar og lesi fjölbreytta texta, s.s. bókmenntatexta, texta í tímaritum, fræðiritum o.s.frv. Nemendur fá þjálfun í fjölbreyttri ritun og tjáningu. Nemendur læra að meta góða málnotkun og öðlast trú á eigin málhæfni í ræðu og riti. Lesin er ein skáldsaga í áfanganum og hún greind með aðferðum bókmenntafræðinnar.

 

ÍSL 203

Í áfanganum er megináhersla lögð á að skoða ólíka bókmenntatexta til bókmenntagreiningar. Markmiðið er að nemendur þjálfi hæfni sína til að beita fræðilegum hugtökum við umfjöllun, rökræður og samanburð ólíkra texta. Í áfanganum er lögð áhersla á að fjalla um sögu máls og menningar frá frumnorrænum tíma til okkar daga. Nemendur kynnast nokkrum atriðum í sögu íslensks máls frá öndverðu til okkar daga, læra að lesa úr hljóðritunartáknum og kynnast helstu mállýskum á Íslandi. Nemendur kynnast norrænni goðafræði og hugmyndaheimi norrænna manna til forna auk þess sem þeir fá tækifæri til að tjá sig í ræðu og riti um efni áfangans. Nemendur kynnast helstu aðferðum við meðferð heimilda í ritun og skrifa heimildaritgerð.

Nemendur lesa texta frá ólíkum tímum við umfjöllun um textana fái nemendur þjálfun í því að beita bókmenntafræðilegum hugtökum. Fjallað verður um norræn trúarbrögð og goðsagnir, helstu æsi og ásynjur og áhrif norrænnar goðafræði á íslenskar nútímabókmenntir. Sýnd verða dæmi um fornar rúnaristur og eldra rúnastafrófið og rifjaður upp fróðleikur um skyldleika og einkenni norrænna mála. Lesin verða textadæmi frá ýmsum tímum og vakin athygli á málfarslegum einkennum þeirra og þeirri þjóðfélagsmynd sem þau birta, uppruna og skyldleika orða, endurnýjun orðaforðans og íslenskum nafnsiðum. Nemendur skrifa heimildaritgerð og helstu atriði í meðferð heimilda.

 

ÍSL 303

Í áfanganum er lögð áhersla á íslenskar bókmenntir og sögu þeirra frá landnámsöld til siðaskipta. Nemendur fræðast einnig um orðaforða og beygingarkerfi fornmáls og öðlast þannig betri skilning á textunum og málfari þeirra. Auk þess tjá nemendur sig í ræðu og riti um forn-bókmenntir, fá þjálfun í meðferð heimilda og skrifa ritgerð um tiltekið efni með eða án samvinnu við aðrar greinar.

 

ÍSL 403

Í áfanganum er lögð áhersla á tengsl máls, bókmennta og þjóðfélags frá siðaskiptum fram yfir aldamótin 1900. Vakin skal athygli á því hvernig málfar íslenskra bókmennta og bókmenntirnar sjálfar spegla þjóðfélagsaðstæður og menningarlíf, tíðaranda, strauma og stefnur á tímum siðaskipta, lærdómsaldar, upplýsingar, rómantíkur og raunsæis. Nemendur kynnast hugmyndum manna um íslenska tungu og viðleitni manna til málhreinsunar. Nemendur fá einnig tækifæri til að tjá sig í ræðu og riti um einstök verk og höfunda þeirra.

 

ÍSL 473

Í áfanganum er fjallað um notkun málsins í hvers kyns samhengi sem tengist lífi ungs fólks við nám og störf í flóknum heimi fjölmiðla á upplýsingaöld. Lögð er rík áhersla á að búa nemendur undir nám á háskólastigi með því að auka færni þeirra á sem flestum sviðum móðurmálsins.

 

ÍSL 503

Í áfanganum kynnast nemendur íslenskri bókmenntasögu 20. aldar í samhengi við strauma og stefnur í þjóðfélags- og menningarmálum bæði hérlendis og erlendis á sama tímaskeiði. Nemendur kynnast helstu höfundum á þessum tíma, lesa verk eftir þá, glöggva sig á inntaki bókmenntaverkanna og reyna að átta sig á erindi þeirra við eigin samtíma og nútímann. Nemendur gera grein fyrir lestrarreynslu sinni munnlega og skriflega með sérstöku tilliti til mismunandi stíls ólíkra höfunda.

 

ÍSL 633 Mál og menningarheimur barna og ungmenna

Í áfanganum kynnast nemendur sögu og þróun íslenskra barna- og unglingabókmennta og fræðast um mál og menningarheim barna: máltöku barna, málþroska og ritun barna. Þeir fá þjálfun í lestri fræðigreina um efnið og gera grein fyrir lestrarreynslu sinni munnlega og skriflega.

 

ÍSL 683 Glæpasagan

Íslenskar glæpasögur njóta sívaxandi vinsælda og glæpasagnaritun hefur staðið með miklum blóma undanfarin ár. Í áfanganum verða lesnar innlendar og erlendar glæpasögur, fjallað um sögu glæpasagnaritunar og nokkrir þekktir höfundar kynntir. Glæpasöguformið verður skoðað og skilgreint og staða glæpasögunnar rannsökuð innan bókmenntanna. Í áfanganum verða einnig skoðuð tengsl bókmenntagreinarinnar við sjónvarp og kvikmyndir auk almennra einkenna afþreyingarbókmennta.