Menu

LÍF 103

Í áfanganum er farið í líkamsstarfsemi dýra og plantna. Fjallað er um fæðunám, meltingu, öndun, efnaflutning, úrgangslosun, ónæmissvörun, boðaflutning, hreyfingu, æxlun, fósturþroskun, stjórn efnaskipta og samvægi. Hvert einstakt líffærakerfi er tekið fyrir og hliðstæð kerfi borin saman. Fjallað er um heilbrigða starfsemi en einnig algengustu frávik. Nemendur skulu kynnast viðfangsefninu á sem fjölbreyttastan hátt, s.s. með notkun upplýsinga- og samskiptatækni og verklegum æfingum.

 

LÍF 203

Í áfanganum er fjallað um sögu erfðafræðinnar og stöðu hennar innan náttúruvísinda. Fjallað er um lykilatriði erfðafræðinnar, frumuskiptingu, litninga og gen, myndun kynfrumna og frjóvgun. Einnig um erfðamynstur lífvera og hvað ræður kynferði þeirra. Litningar eru teknir nánar til umfjöllunar frá NÁT 103 og skoðað hvernig þeir stjórna myndun próteina í lífverum og atburðarás prótínmyndunar rakin. Breytingum á erfðaefni, stökkbreytingum og litningabreytingum er lýst ásamt sérkennum í erfðum örvera og fjallað um helstu aðferðir sem beitt er í erfðarannsóknum og erfðatækni. Fjallað er um tíðni og jafnvægi gena í ólíkum stofnum lífvera. Gert er ráð fyrir fjölbreyttri verkefnavinnu nemenda í áfanganum.

 

LÍF 113

Áfanginn á að veita nemendum greinargóða yfirsýn yfir vistfræðina sem fræðigrein, aðferðafræði hennar og viðfangsefni. Lögð er áhersla á sérstöðu Íslands, helstu gerðir vistkerfa sem hér finnast í sjó jafnt sem á landi og vistfræðilegar rannsóknir hér á landi. Gert er ráð fyrir fjölbreyttri verkefnavinnu nemenda í áfanganum sem m.a. krefst vettvangsferða, heimsókna, upplýsingaöflunar og framsetningar ýmissa smærri og stærri verkefna.

Í áfanganum er fjallað um uppbyggingu, orkuflæði og efnahringrásir vistkerfa og teknar fyrir kenningar sem lúta að stöðugleika eða kviku jafnvægi vistkerfa. Fjallað er um líffræðilegan fjölbreytileika og breytingar á tegundasamsetningu líffélaga, bæði af náttúrulegum orsökum og af völdum manna.

Stofnhugtakið er tekið fyrir og skoðaðar helstu mælingaaðferðir og rannsóknir á stofnum. Fjallað er um sjálfbæra nýtingu lífrænna auðlinda og helstu nytjastofna hér við land. Rætt er um aðlögun og hæfni lífvera og áhrif vistfræðilegra þátta á þróun þeirra og atferli.

 

LOL 103 (Líffæra- og lífeðlisfræði - Valáfangi)

Farið er yfir skipulagsstig líkamans og helstu líffærakerfi sem lítið var talað um í LÍF103 kynnt. Hugtakið samvægi er útskýrt svo og starfsemi afturvirkra stjórnkerfa. Farið er yfir grundvallarhugtök líffærafræðinnar. Bygging og starfsemi frumna og frumuskiptinga er rifjuð upp. Sérstök áhersla er lögð á lífeðlisfræði frumuhimnunnar. Stutt ágrip af vefjafræði. Fjallað er um helstu einkenni hvers vefjaflokks og

skiptingu í undirflokka. Farið er í byggingu þekjukerfis og margþætt starfsemi húðar útskýrð. Fjallað er um bein uppbyggingu og hlutverk þeirra. Farið er í byggingu og starfsemi vöðvafrumna og starfsemi einstakra vöðva og vöðvahópa er skoðuð. Fjallað er um starfsemi taugakerfis og flokkun þess. Farið er í byggingu taugafrumna og

starfsemi þeirra útskýrð. Umgerð og byggingu miðtaugakerfisins eru gerð skil. Farið í mænuviðbrögð, mænutaugar, taugaflækjur og byggingu og svæðaskiptingu heilans. Flokkun og starfsemi dultaugakerfisins er útskýrð. Farið er í almenna þætti er tengjast innkirtlakerfinu og síðan farið í byggingu og starfsemi allra innkirtla líkamans. Verklegar æfingar verða þar sem því verður viðkomið auk annarrar verkefnavinnu.

 

LOL 203 (Líffæra- og lífeðlisfræði frh. - Valáfangi)

Eftir að hafa stundað nám í áfanganum á nemandinn að hafa mjög góða þekkingu á byggingu og starfsemi eftirfarandi líffærakerfa: blóðrásarkerfis, vessakerfis, öndunarkerfis, meltingarkerfis, þvagkerfis, æxlunarkerfis auk fósturþroska. Flest þessara líffærakerfa eru kynnt í LÍF103 en hér verður farið dýpra í hvert og eitt þeirra. Nemendur eiga einnig að hafa skilning á hvernig starfsemi líffærakerfanna tengist innbyrðis en áfanginn er hugsaður sem undirbúningur fyrir nám í heilbrigðisvísindum í H.Í. Verklegar æfingar verða þar sem því verður viðkomið auk annara verkefnavinnu.