Menu
Námsmat, próf og námsframvinda

Markmið
Í samræmi við aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla er það markmið skólans að stefna að auknu símati. Námsmat skal miða að því að endurspegla markmið hvers áfanga eins og þeim er lýst í aðalnámskrá. Fyrirkomulag námsmat er í höndum kennslu­stjóra og fagstjóra og birtist það samhliða áfangalýsingum í hverri grein. Þá skal tilhögun námsmats einnig lýst í kennsluáætlunum. Kennarar bera ábyrgð á námsmati og þeir meta úrlausnir nemenda.

Einkunnagjöf
Lokaeinkunnir í áföngum í framhaldsskólum skulu gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Skal hafa eftirfarandi til hliðsjónar um merkingu þeirra:
10  u.þ.b.                95-100% markmiða náð
9       -                      85-94%           -
8       -                      75-84%           -
7       -                      65-74%           -
6       -                      55-64%           -
5       -                      45-54%           -
4       -                      35-44%           -
3       -                      25-34%           -
2       -                      15-24%           -
1       -                       0-14%           -
Á haustprófum þar sem prófað er úr hluta af áfanga getur kennari gefið í heilum tölum og hálfum. Þá er merking talnanna þessi:
10  u.þ.b.                98-100% markmiða náð
9,5  u.þ.b.               93-97%           -
9          -                   88-92%           -
8,5       -                   83-87%           -
8          -                   78-82%           -
7,5       -                   73-77%           -
7          -                   68-72%           -
6,5       -                   63-67%           -
6          -                   58-62%           -
5,5       -                   53-57%           -
5          -                   48-52%           -
4,5       -                   43-47%           -
4          -                   38-42%           -
3,5       -                   33-37%           -
3          -                   28-32%           -
2,5       -                   23-27%           -
2          -                   18-22%           -
1,5      -                    13-17%           -
1         -                      0-12%           -
Próf
Prófhald
Samhliða gerð kennsluáætlana ákveða kennarar tímasetningar fyrir skyndipróf eða stærri verkefni sem eiga að vera hluti af námsmati í áfanganum. Áætlanir þessar skulu ræddar á kennarafundi og samræmdar þannig að próf og verkefni af þessu tagi dreifist eðlilega á önnina.
Í starfsáætlun skólans er tilgreindur tími fyrir annapróf. Haustannarpróf hefjast í byrjun des­ember og standa til jólaleyfis, og vorannarpróf hefjast í byrjun maí og standa að jafnaði fram yfir 20. maí. 

Framvinda í námi 
Próf
Haustannarpróf eru haldin í desember. Prófað er úr námsefni haustannar. Nemandi fær einkunn fyrir hverja námsgrein og kallast hún haustannar­einkunn.
Haustannareinkunnir eru með tvennum hætti:
1. Þegar er um að ræða að áfanga ljúki eru gefnar einkunnir í heilum tölum frá 1-10.
2. Ef um ársáfanga er að ræða eru gefnar einkunnir í heilum og hálfum tölum. Þegar áfanganum lýkur að vori er gefin einkunn í heilum tölum.
Vorannarpróf eru haldin í maí.
Sjúkrapróf og endurtökupróf eru að jafnaði haldin dagana eftir síðasta próf.
Athygli skal vakin á því að þegar einkunnir hafa verið afhentar á vorönn verða nemendur sjálfir að átta sig á stöðu sinni, hvað varðar endurtökukvaðir. Sá sem ekki mætir í endurtökupróf hefur ekki staðist bekkinn.
Námsefni til endurtökuprófs er námsefni haust- og vorannar, hvort sem um er að  ræða ársáfanga eða fleiri áfanga í viðkomandi grein.
 
 
Einkunnir - Skilgreiningar:
Lokaeinkunn: Einkunn sem er gefinn fyrir hvern áfanga. Þessi einkunn er gefin í heilum tölum.
Árseinkunn: Meðaltal haustannareinkunnar og vorannareinkunnar, gefin í heilum og hálfum tölum.
Aðaleinkunn: Vegið meðalatal árseinkunna að meðtalinni skólasóknaeinkunn.
Vegið meðaltal: Einkunnir fá vægi miðað við einingafjölda sem liggur að baki.  
 
 
Lágmarkskröfur í 1., 2. og 3. bekk
Nemandi hefur staðist bekkinn og öðlast rétt til að flytjast í næsta bekk fyrir ofan ef hann uppfyllir eftirfarandi lágmarkskröfur:
-lokaeinkunn að vori a.m.k. 4.0
-árseinkunn, þ.e. meðaltal haustannar- og vorannareinkunnar, að lágmarki 4.0
-aðaleinkunn, þ.e. meðaltal árseinkunna, 5.0
Endurtökuréttur
Nemandi sem hefur náð aðaleinkunn 5,0 eftir vorannarpróf en er hins vegar undir lágmarki í einni eða tveimur greinum, á rétt á að þreyta endurtökupróf í viðkomandi grein(um) ef einkunn/ir hans eru ekki lægri en 2,0.
Nemandi sem er undir lágmarki í þremur (eða fleiri) greinum eftir vorannar­próf er fallinn í bekk.
Nemandi sem fellur á endurtökuprófi í annari greininni getur sótt um leyfi, einu sinni á skólaferli sínum, til að setjast í næsta bekk ef einkunn hans er ekki lægri en 2 í endurtökuprófinu. Umsókn þessa efnis þarf að berast skólameistara innan viku frá skólalokum.
Nemandi sem fellur með aðaleinkunn 4,0 eða hærri getur sótt um að setjast aftur í bekkinn. Umsókn um slíkt þarf að koma fram strax eftir prófalok.
Nemanda með aðaleinkunn lægri en 4,0 er ekki heimilt að setjast aftur í bekk. Sama á við um nemanda sem hættir í skóla eftir 1. mars nema hann fái leyfi skólameistara. Ef nemandi stenst ekki bekk í annarri atrennu er honum óheimil frekari skólavist.
Vorannareinkunn verður alltaf að ná 4,0. Ef hún nær því ekki gildir sama um hana og lokaeinkunn.
Séu bæði vorannareinkunn og lokaeinkunn nemanda í sömu grein undir lágmarki telst það sem eitt fall. Ef önnur þessara einkunna er lægri en 2,0 er ekki um endurtektarrétt að ræða.
Endurtökupróf eru ætluð þeim nemendum sem hafa fengið 5,0 eða hærra í aðaleinkunn en ekki staðist lág­marks­­kröfur í einni eða tveim greinum (lágmark: vorannar-/lokaprófs­einkunn 4,0 og lokaeink­unn 4,0). Endur­­töku­próf má því líta á sem lokatilraun nemenda til að standast bekkinn.
Nemandi sem fær aðaleinkunn sem er lægri en 5,0 er fallinn á bekk, án réttar til endurtöku.
Nemandi sem fær 3 loka- og/eða vorannareinkunnir eða fleiri sem eru lægri en 4,0, er fallinn á bekk.

Útskriftarnemendur
Skilgreiningar:
Árseinkunn er gefin fyrir hverja námsgrein í lok skólaárs. Þessi einkunn reiknað meðaltal lokaeinkunna. Hún er gefin í heilum og hálfum tölum.
Fullnaðareinkunn er vegið meðaltal árseinkunna í viðkomandi grein. Þessi einkunn er gefin í heilum og hálfum tölum.
Aðaleinkunn er vegið meðaltal allra fullnaðareinkunna og er gefin með tveim aukastöfum.
Nemandi telst hafa staðist stúdentspróf ef hann uppfyllir eftirfarandi lágmarks­kröfur:
a. Fullnaðareinkunn í hverri grein          4,0
b. Árseinkunn í hverri grein á 4. ári       4,0*
c. Aðaleinkunn                                     5,0
*Vorannareinkunn verður alltaf að ná   4,0 .
Nemandi getur þó brautskráðst með tvær fullnaðareinkunnir eða árseinkunnir á 4. ári, undir 4,0 ef engin einkunn er undir 2,0.
Í þessu samhengi telst það eitt fall ef árseinkunn og fullnaðareinkunn í sömu grein, önnur hvor eða báðar, er(u) lægri en 4,0. Sé önnur þessara einkunna lægri en 2,0 telst nemandi ekki hafa staðist stúdentspróf.
Ef þrjár fullnaðareinkunnir eða árseinkunnir eru undir 4,0 getur nemandi endirtekið eitt hinna þriggja fyrir lok skólaársins og þannig freistað þess að útskrifast að vori. 
Ef fjórar árseinkunnir eða fullnaðareinkunnir eru undir 4,0,  er nemanda ekki heimilt að endurtaka próf og telst því fallinn á stúdentsprófi.
Ef aðaleinkunn nemanda er lægri en 5,00 er hann fallinn á stúdentsprófi.
Stúdentsprófsskírteini
Á stúdentsprófsskírteini koma fram eftirfarandi upplýsingar:
a. Nafn og kennitala nemanda.
b. Námsbraut nemanda.
c. Einkunnir í öllum áföngum nemanda í hverri grein.
d. Allar árseinkunnir í hverri grein í heilum tölum og hálfum
e. Heildareiningafjöldi í hverri grein.
f. Vegið meðaltal árseinkunna fyrir hvert námsár og nefnist sú einkunn fullnaðareinkunn.
g. Skólasóknarhlutfall á hverju ári.
i. Upplýsingar um  trúnaðarstörf og/eða sérstök verkefni sem nemandinn hefur tekið þátt í á námsferli sínum. .
j. Einkunnir á samræmdum stúdentsprófum.
Ýmislegt
Yfirlýsing vegna eðlis skólans
Þar sem Menntaskólinn að Laugarvatni starfar eftir bekkjakerfi sækja nemendur hvers bekkjar, að jafnaði, tíma í öllum áföngum sem eru undir í viðkomandi bekk. Hátti þannig til að nemandi hafi þegar lokið því sem honum er ætlað að sækja í viðkomandi bekk, ræðst það af árangri hans hvort honum er ráðlagt að sitja áfangann aftur.
Nemendum sem sækja um skólavist og sem þarf að meta inn í bekk, ljúka þeim áföngum sem upp á vantar annað hvort utanskóla eða í fjarnámi.
Ekki er um að ræða að nemanda sé leyft að taka fleiri en 2 3e áfanga í fjarnámi samhliða fullu námi í skólanum.
Ekki er um að ræða formleg skil í skólastarfinu um áramót og geta því nemendur haldið námi til vors óháð haustannareinkunnum.
Að skipta um námsbraut
Óski nemandi að skipta um námsbraut gildir eftirfarandi:
-Almennt er ekki um það að ræða, að nemandi geti skipt um námsbraut eftir að nám er hafið á 2. ári. 
-Nemandi þarf að uppfylla skilyrði um áfanga sem hann kann að vanta þegar hann skiptir um námsbraut. Þetta gerir hann annað hvort með því að gangast undir próf í viðkomandi áfanga/áföngum næst þegar próf er haldið, eða lýkur áfanganum/áföngunum í fjarnámi.
Í undantekningartilfellum getur verið um það að ræða að kennari meti það svo að nemandi hafi staðist undanfara ef hann fullnægir kröfum í næsta áfanga.