Menu

Prófreglur

1. Próftafla:
Skólinn leggur tímanlega fram próftöflu, þ.e. eigi síðar en þremur vikum fyrir ætlaða byrjun prófa.
 
 
2. Veikindi í prófum og sjúkrapróf:
Nemandi sem veikist eða slasast á próftímanum hefur rétt á að taka sjúkrapróf enda tilkynni hann það samdægurs og skili læknisvottorði því til stað­festingar innan þriggja daga. Svipað getur gilt um önnur forfallatilvik s.s. dauðsfall nákom­ins aðila eða keppnisferðir með íþróttalandsliðum. 
Ekki er um að ræða undanþágur eða tilslökun á próftöku í tilvikum eins og t.d. utanlandsferðum einstaklinga eða fjölskyldna.
Sjúkrapróf eru haldin við fyrsta hentuga tækifæri, þ.e. að öllu jöfnu strax við lok venjulegs próftíma.
Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli kennara í yfirsetu á því og skrifar hann athugasemd um það á prófúrlausn nemandans.
Sjúkrapróf skal haldið eigi síðar en tveim vikum frá því að próf var haldið. Ef nemandi kemst ekki í sjúkrapróf vegna veikinda eða slysfara hefur hann heimild til að þreyta sjúkraprófið síðar. Hafa skal samráð við nemanda um tímasetningu slíks sjúkraprófs.
 
3. Fjarvera á prófatíma 
Nemandi sem mætir ekki til prófs á prófatíma og uppfyllir ekki viðurkennd skilyrði sbr. lið 2,  hefur fyrirgert rétti sínum til áframhaldandi dvalar í skólanum.  Á þetta við um alla nemendur, hvort sem þeir eru ólögráða eða lögráða.
 
4. Prófverkefni:
Á haus prófverkefna skal tilgreina skóla, önn, ártal, heiti áfanga og bekkjar, nafn kennara, lengd próftíma, námsefni og hjálpargögn – ef einhver eru. Þá skal vægi prófþátta koma fram á prófverkefni.  Prófverkefni eiga að vera þannig samin að þau séu auðskilin og þurfi ekki skýringa við. Umfang prófverkefna skal vera í samræmi við lengd próftíma.  

5. Hlutverk kennara sem leggur fyrir próf:
Kennarar í yfirsetu skulu gefa sig fram eigi síðar en 10 mínútum fyrir auglýstan próftíma.
Kennari sem leggur fyrir próf skal ljúka frágangi prófs eigi síðar en daginn áður en prófið er lagt fyrir. Hann, eða staðgengill hans í lögmætum forföllum, skal koma á prófstað í skriflegum prófum. Ef því verður ekki við komið, vegna lögmætra forfalla, skal vera unnt að ná í hann meðan á prófi stendur. Ef kennari verður var við almenn vafaatriði hjá nemendum í prófi þá skal hann greiða úr þeim í heyranda hljóði ef aðstæður leyfa.
 
6. Próftími:
Annarpróf skulu einungis haldin á auglýstum próftímum skv. próftöflu og einstökum efnis­þáttum sé ekki lokið með prófum á námstím­an­um. Annað getur gilt um námsefni sem metið er með öðrum hætti en venjubundnum prófum.
Próf hefjast að öllu jöfnu kl. 8:30. Próftími er ákvörðun kennara, en er í annarprófum venjulega frá tæpum 2 klst. upp í hámark rúmar 2 klst. 
Nemandi skal mæta til prófs eigi síðar en 5 mínútum fyrir auglýstan próftíma.
Komi nemandi of seint í próf, er honum heimil próftaka svo fremi sem enginn próftaki hafi yfirgefið prófstað.
 
7. Sérstök próf:
Fagstjóra er heimilt, að fengnu samþykki skóla­meistara, að kveðja til prófdómara í munnlegum prófum í tungumálum.
Skólinn mun gera það sem unnt er til að koma til móts við nemendur, sem eiga við fötlun og/eða sértæka námserfiðleika að etja. Um getur m.a. verið að ræða sérstaka samsetningu prófa, lengri próftíma, sérhönnuð próf, notkun hjálpargagna, aðstoð í prófum, munnleg próf o.fl.

8. Próflok:
Kennarar skulu kappkosta að hafa prófverkefni ekki lengri en svo að þau séu vel leysanleg á gefnum próftíma.
Reynist próftími nemendum of stuttur skal prófgæslumaður ekki taka prófgögn frá próf­tökum, nema að höfðu samráði við kennara eða þann sem ber ábyrgð á framkvæmd prófsins.
Þegar nemandi hefur lokið úrlausn prófs skal hann ganga frá því í prófmöppu og skilja eftir við sæti sitt áður en hann gengur hljóðlega út.
Kennarar í yfirsetu bera ábyrgð á að allir nemendur skili verkefnum og sjá um að koma þeim í hendur kennara í viðkomandi áfanga eða til skólameistara, ef ekki næst í kennarann.  

9. Yfirferð prófa:
Kennarar skulu ljúkja yfirferð  svo fljótt sem auðið er og úrslitum prófa skal skilað til skrifstofu skólans jafnskjótt og þau liggja fyrir. Skrifstofa skólans sér um skráningu og birtingu einkunna.

10. Prófsýning:
Að loknum prófum að vori skulu nemendur eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara í síðasta lagi innan þriggja daga frá afhendingu einkunna. Skólameistari auglýsir tíma til prófsýningar.
Nemendur sjá haustannarprófúrlausnir sínar venjulega í byrjun vorannar ef ekki finnst ráðrúm til þess við lok haustprófa. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt svo fljótt sem verða má og niðurstaðan birt viðkomandi nemanda án tafar. 
 
11. Misferli:
Ef kennari í yfirsetu telur nemanda hafa rangt við í prófi skal hann skrá nafn nemandans og halda til haga óleyfilegum prófgögnum ef einhver eru en gæta þess jafnframt að þögn og ró ríki áfram í prófstofu.   Kennari skal tilkynna skólameistara um atvikið strax að prófi loknu. Nemandanum er heimilt að halda áfram prófi, en gert að ræða við skólameistara að því loknu.  
Nemanda, sem staðinn er að misferli í prófi, skal vísa frá prófi og getur hann átt von á brottvikn­ingu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en prófi. 
 
12. Varðveisla prófúrlausna:
Allar prófúrlausnir skulu varðveittar í eitt ár. Að þeim tíma liðnum ber skólameistari ábyrgð á að eyða öllum skriflegum prófúrlausnum.
Próftaki getur fengið að sjá prófúrlausn sína ef hann leggur fram beiðni um það innan árs frá því að niðurstöður prófs voru birtar. Einnig getur hann fengið ljósrit af prófúrlausn sinni ef hann óskar þess, gegn gjaldi sem skólastjórn ákveður.
Þeir sem þess óska geta fengið afhent eintök af prófverkefnum skóla – eftir að próf í viðkomandi grein hefur verið þreytt, sbr. upplýsingalög nr. 50/1996, gegn gjaldi sem skólastjórn ákveður. 
 
13. Birting einkunna:
Að prófum loknum eru úrslit þeirra birt nemend­um.  Kennarar gefa ekki upplýsingar um úrslit prófa.  Öllum nemendum í sama áfanga eru birt úrslit samtímis.  Upplýsingar um einkunnir úr sjúkra- og endurtökuprófum veitir skrifstofa skólans.  
Einkunnir eru birtar nemendum persónulega eða í pósti. Er það í samræmi við lög nr. 121/1989 um meðferð persónuupplýsinga, sem segja að skólum sé óheimilt að birta einkunnir nemenda undir nafni, kennitölu eða öðru skráningar­auð­kenni sem hægt er að persónugreina, nema fyrir liggi skrifleg heimild viðkomandi nemenda. 
Að prófum loknum eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara.  Prófsýning fer að jafnaði fram innan þriggja daga frá birtingu einkunna. Að jafnaði tilgreinir skólameistari stað og stund fyrir prófsýningu.  
Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt svo fljótt sem verða má og niðurstaðan birt viðkomandi nemanda án tafar. 

14. Ágreiningur um námsmat
Leitast skal við að leysa innan skólans ágreining, sem upp kanna að koma varðandi námsmat.  Nemandi getur komið athugasemdum við námsmat á framfæri við kennara í prófsýningu.  Náist ekki samkomulag milli nemanda og kennara er málinu vísað til fagstjóra í viðkomandi grein eða staðgengils hans.  Ef ágreiningur er enn uppi skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir prófúrlausnir að höfðu samráði við fagstjóra.  Úrskurður prófdómara skal gilda.