Menu

Menntaskólinn að Laugarvatni er aðili að verkefninu „Heilsueflandi framhaldsskóli" frá haustinu 2011. Það er Embætti landlæknis sem heldur utan um verkefnið og er Héðinn Svarfdal Björnsson, starfsmaður embættisins, umsjónarmaður þess. 31 framhaldsskóli á Íslandi taka þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Þeir eru mislangt á veg komnir í verkefninu en forystuskóli er Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.

Fjallað er um næringu fyrsta þátttökuárið, hreyfingu hið næsta, svo geðrækt og fjórða veturinn verður unnið almennt með lífsstíl.

heilsueflandi framhaldsskoli 

 

Stýrihópur í ML vegna verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli:

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, verkefnisstjóri
Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari
Jón Snæbjörnsson, kennari
Erla Þorsteinsdóttir, húsfreyja
Ingunn Ýr Schram, fulltrúi nemenda
Þórný Þorsteinsdóttir, fulltrúi nemenda

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Embættis landlæknis.

Heilsustefna Menntaskólans að Laugarvatni

ML er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Heilsuefling lýtur að öllum þeim þáttum sem stuðla að því að auka vellíðan á sál og líkama. Heilsustefna skólans tekur mið af nemendum og starfsfólki hans, hvort sem er í skólanum eða utan. Allir þeir sem koma að starfi skólans er hvattir til að rækta sál og líkama og það er hlutverk skólans að skapa aðstæður sem stuðla að þessari ræktun.

Stefna þessi er unnin á grundvelli þeirrar hugmyndafræði sem liggur að baki verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og undir formerkjum einkunnarorða skólans: MANNGILDI, ÞEKKING, ATORKA. Hún er unnin í samráði við þá hagsmunaaðila sem því tengjast innan skólans og í umhverfi hans: nemendur, starfsfólk, foreldra og skólanefnd.

Heilsustefna skólans tekur tillit til fjögurra meginþátta: næringar, hreyfingar, geðræktar og lífsstíls.

Næring:

Markmið:

 • í mötuneyti skólans sé borinn fram fjölbreyttur og hollur matur.
 • ávallt sé haldið á lofti mikilvægi góðrar næringar.
 • ávallt sé gott drykkjarvatn innan seilingar.
 • á fundum innan skólans er hollusta á borðum
 • á samkomum á vegum nemenda sé ávallt valkostur um holla drykki og mat eða kaffibrauð.

Leiðir:

  • Samráð og stuðningu við bryta og starfsfólk í mötuneyti.
  • Matseðill vikunnar er birtur á vef skólans.
  • Umfjöllun um hollt mataræði í flestum námsgreinum.
  • Meta þörf á fleiri vatnshönum í skólahúsinu og fjölga ef þörf reynist á.
  • Starfsmönnum standi til boða grænmeti og ávextir í hléum.
  • Nemendur haf góðan aðgang að ódýru grænmeti, ávöxtum og hollum drykkjum, bæði á skólatíma og síðdegis á heimavistum.
  • Unnið sé að því, með viðkomandi í nemendasamfélaginu, að val sé um holl matvæli og drykki á fundum og samkomum á vegum nemenda.

Hreyfing:

Markmið:

 • hvetja starfsfólk og nemendur til hreyfingar og heilbrigðs lífernis í hvívetna
 • auðvelda aðgengi að aðstöðu til líkamsræktar fyrir starfsmenn og nemendur.
 • halda ávallt á lofti mikilvægi hreyfingar fyrir vellíðan og hreysti.

Leiðir:

  • skólinn tryggi starfsfólki ókeypis aðgang að íþróttamannvirkjum á Laugarvatni.
  • auk fastra íþróttatíma (2 í viku) tryggi skólinn nemendum aðgang að íþróttamannvirkjum á Laugarvatni eins og kostur er.
  • bjóða upp á útivistaráfanga þar sem áhersla er lögð á hreyfingu og útivist.
  • farin verði árleg fjallganga að hausti.
  • hvetja nemendur og starfsfólk til þátttöku í Lífshlaupinu á hverju ári.

Geðrækt

Markmið:

 • leggja áherslu á að skapa nemendum og starfsfólki jákvætt og uppbyggilegt umhverfi.
 • miða allt starfsskipulag skólans við að nemendur og starfsfólk fá hvatningu í störfum sínum.
 • stjórnun skólans miði að því skapa jákvæð og óþvinguð samskipti milli starfsmanna, milli starfsmanna og nemenda og innan nemendahópsins.
 • tryggja nemendum og starfsfólki nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu sem stuðlað getur að vellíðan og árangri í störfum og námi.

Leiðir:

  • starfsfólk leggi sig fram um að efla jákvæð samskipti við nemendur.
  • unnið verði með forystu nemenda að uppbyggilegu félagslífi
  • fjallað verði um mikilvægi geðræktar eftir því sem við á í sem flestum námsgreinum, ekki síst í lífsleikni.
  • unnið verði, í samstarfi við FOMEL (foreldrafélag skólans), að heimsóknum frá ýmsum aðilum sem hafa fram að færa boðskap eða umfjöllun sem er til þess fallinn að auðga og bæta líf nemenda.
  • unnið verði að starfendarannsóknum í kennarahópnum.
  • nemendur með staðfest geðræn vandamál mæta skilningi  og sveigjanleika varðandi verkefnaskil og mætingu svo fremi að þeir teljist ekki of veikir til þess að sinna námi sínu.
  • fái starfsmaður eða nemandi ekki notið sín sem skyldi vegna geðræns vanda eða fíknar, hlutast stjórnendur skólans til um að fá aðstoð sérfræðings (sálfræðings eða geðlæknis) til að takast á við það.

Lífsstíll

Markmið:

 • stuðla að meðvitund starfsmanna og nemenda um samhengið á milli góðrar næringar, hreyfingar, geðræktar, náms, starfs og daglegs lífs yfirleitt.
 • halda stöðugt á lofti mikilvægi jákvæðra samskipta, þar sem hver einstaklingur nýtur virðingar óháð kyni, útliti eða skoðunum.
 • stuðla að því að skólinn verði vímuefnalaus vinnustaður og heimili.

Leiðir:

  • Skólinn og/eða foreldrafélag skólans standa fyrir stuttum fyrirlestrum eða námskeiðum að minnsta kosti einu sinni á hverjum vetri sem styðja við næringar-, hreyfingar-, geðræktar- og námsmarkmið sem sett eru.
  • nemendur eru hvattir til að tileinka sér góðar svefnvenjur þar sem þeim eru tryggðar góðar aðstæður til að njóta svefns.