Menu

Nordplusvoksen verkefni - Developing new materials for sport leaders

Menntaskólinn að Laugarvatni tók þátt í þessu samstarfsverkefni Norðurlanda og nágrannaþjóða um íþróttir og útivist. Verkefnið hófst á haustdögum 2008 og stóð til vors 2010.

Þátttökuþjóðir voru:

  • Finnland – Skóli: Norvalla Sport Institut.  Fulltrúar: Olav Björkström og Toffe Sparv.
  • Svíþjóð – Eslöv Folkhögskola. Fulltrúar: Jörgen Sellin og Christer Fermvik.
  • Lettland – Skóli: Cesis City Sport School. Fulltrúi: Janis Naglis.
  • Álandseyjar – Skóli: Álands Folkhögskola. Fulltrúar: Hans Akerblom og Paul.
  • Ísland – Skóli: Menntaskólinn  Laugarvatni. Fulltrúar: Ólafur Guðmundsson, Pálmi Hilmarsson, Smári Stefánsson, Halldór Páll Halldórsson og Jóna Björk Jónsdóttir.

Markmið verkefnisins miðaði að því að auka samstarf „norrænu“ þjóðanna (Finnland, Svíþjóð, Ísland, Lettland og Álandseyjar) um íþróttir og útivist ýmiskonar og hreyfingu almennt. Til að ná þessu markmiði eða allavega að nálgast það voru settir niður fundir fulltrúa þessarra fimm þjóða með reglubundnum hætti meðan verkefnið stóð yfir eða í tvö ár. Einnig var hönnuð heimasíða þar sem samskipti gátu farið fram. Þar inni voru settir upp æfingabankar fyrir ýmsar tegundir hreyfinga ásamt almennum fróðleik um íþróttir og útivist. Til að mynda settum við í ML kennsluáætlanir í Útivist þarna inn. Með þessu móti er auðvelt fyrir þessi þátttökulönd (og jafnvel fleiri) að ná sér í hugmyndir um æfingar og fleira þessu tengt.

Fundir tengdir verkefninu voru fimm talsins, einn fundur í hverju landi: í Norvalla Sports Institute í Finnlandi 26. – 27. ágúst 2008, í ML á Laugarvatni á vordögum 2009, í Álands Folkhögskola á Álandseyjum 3. – 5. september 2009, í Cesis City Sport School í  Lettlandi 19. – 22. nóvember 2009, í Helsinkborg í Svíþjóð 28. – 30. mars 2010.

Afrakstur verkefnisins

Ávinningur svona samstarfs er margþættur. Í fyrsta lagi kynnist fólk frá mismunandi löndum og það aflar sér vitneskju um aðstæður annarra skóla í öðrum löndum, þ.e. hvernig fara aðrir að við kennslu (sömu aldurshópa) og hvað er hægt að læra af samstarfsaðilunum. Þetta mun allt auka fagmennsku og eða auðvelda framsetningu efnis, nú eða gera hlutina skemmtilegri fyrir nemendur o.s.frv.  Fulltrúum ML í þessu verkefni Nordplusvoksen fannst þessi hluti nýtast vel.

Í annan stað er hægt að skiptast á gögnum (æfingabankar, fræðigreinar og bækur) t.d. í gegnum tölvupóst eða eins og gert var í þessu tilfelli, í gegnum sérstaka heimasíðu sem búin var til í tengslum við verkefnið. Það er vissulega kostur að hægt er að sækja fróðleik inn á hana hvar og hvenær sem er. Sá böggull fylgir þó skammrifi að til að það sé hægt að sækja sér það sem ávallt er efst á baugi hverju sinni þarf að uppfæra síðuna reglulega og menn þurfa að vera duglegir að setja nýtt efni inn. Þessu hefur því miður ekki verið fylgt eftir og því frekar lítið hægt að nýta sér fróðleik þessa samstarfsverkefnis á rafrænu formi. Það er miður því ef rétt er að verki staðið getur svona heimasíða verið mikil fróðleiksnáma.

Þegar öllu er á botninn hvolft má segja að þetta hafi verið gott samstarfsverkefni skóla/þjóða en þó hefði eftirfylgnin mátt vera meiri til að ávinningurinn yrði sem bestur.

 

Ólafur Guðmundsson fagstjóri í íþróttum og útivist við Menntaskólann að Laugarvatni.

Viltu senda inn athugasemd?

Er eitthvað sem þér finnst vanta á þessa síðu?

Sendu póst