Menu

Saga Menntaskólans að Laugarvatni kom út hjá Sögusteini árið 2001. Bókin ber nafnið Mennta­skólinn að Laugarvatni - Forsaga, stofnun og saga til aldarloka. Ritstjórar eru Margrét Guðmundsdóttir og Þorleifur Óskarsson. Um sögu skólans og skólalífið á 20. öld vísast til bókarinnar. Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um allra helstu þætti þessarar sögu.


Menntaskólinn að Laugarvatni var formlega stofnaður sem sjálfstæður skóli 12. apríl 1953.  Í nokkur ár þar á undan, eða frá 1947, voru nemendur við menntaskólanám á Laugarvatni í samstarfi við Menntaskólann í Reykjavík. 1952 útskrifuðust síðan sex nemendur héðan sem stúdentar frá MR.

Nokkrar ástæður fyrir því að skólinn var stofnaður hér hafa verið nefndar helstar:

  •  Í Héraðsskólann komu margir unglingar með fulla burði til framhaldsnáms, en hefðu aldrei sótt skólana í Reykjavík eða á Akureyri.
  • Mjög öflugt kennaralið, með Bjarna Bjarnason skólastjóra fremstan í flokki, var við Héraðsskólann á þessum árum
  • Með lögum frá 1946 var mælt fyrir um stofnun menntaskóla í sveit þegar fé yrði veitt til þess á fjárlögum.


Jónas Jónsson frá Hriflu studdi stofnun menntaskólans af alefli og við stofnun hans færði hann skólanum að gjöf Hvítbláin, þ.e. bláhvíta silkifánann sem hafður var við útför Einars Benediktssonar, skálds.

Skólameistarar

Fyrsti skólameistarinn var dr. Sveinn Þórðar­son og veitti hann skólanum forstöðu 1953-1959. (í leyfi 1958-59) Hann valdi skólanum skóla­söng­inn TIL FÁNANS eftir Einar Benediktsson og einkunnarorðin Manngildi, þekking, atorka, sem eru þýðing Baldvins Einarssonar (1801-1833) á hugtakinu "humanismus".

Ólafur Briem var settur skólameistari veturna 1958-1960.

Annar skólameistari skólans, frá 1960-1970, var Jóhann S. Hannesson. Undir stjórn hans fjölgaði nemendum úr 100 í 160. Nemenda­fjöldinn hefur síðan verið á bilinu 140-200.

Þriðji skólameistari skólans var Kristinn Krist­mundsson, en hann kom að skólanum 1970. Hann gegndi síðan starfi skólameistara þar til hann fékk lausn frá embætti að eigin ósk frá og með 1. september 2002. Kristinn útskrifaðist frá skólanum 1957.

Halldór Páll Halldórsson, stúdent frá skólanum 1977, var settur skólameistari í leyfi Kristins, 2001-2.  Halldór Páll var skipaður skólameistari til fimm ára í maí 2002 og aftur til  fimm ára haustið 2007 eða til ársins 2012.  Hann hefur verið skipaður skólameistari til ársins 2022.

Aðstoðarskólameistarar

Aðstoðarskólameistari var fyrst ráðinn til starfa í hlutastarf 1990. Þessir hafa gegnt starfinu síðan:
1990-1991 Sigurborg Hilmarsdóttir
1991-1992 Kristján Eiríksson
1992-1994 Steinar Matthíasson
1994-1999 Óskar H. Ólafsson
1999-2017 Páll M. Skúlason

Umfang þessa starfs hefur stöðugt verið að aukast á síðustu árum, ekki síst með nýrri aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla.

Námsráðgjafar

Námsráðgjafi hefur verið við skólann frá 1986, en þessi hafa gegnt því starfi síðan:

1986-1992 Steinar Matthíasson
1992-1999 Páll M Skúlason
1999-2001 Ingólfur R. Björnsson
2001- Gríma Guðmundsdóttir

Húsnæði

Húsnæði hefur alltaf haft mikil áhrif á starfsemi skólans. Í skólahúsinu var heimavist sem rúmaði 84 nemendur, en þá voru kröfur til rýmis allt aðrar en nú er. Guðjón Samúelsson teiknaði húsið.

Á árunum 1966-1969 voru reist tvö heima­vistarhús, Nös og Kös, sem rúma nálægt 140 nemendur, en nú er verið að hefjast handa við að innrétta þessi hús að nýju til að koma til móts við kröfur nútímans. Við þær breytingar fækkar rúmum óhjákvæmilega.

1972-3 var tekin í notkun viðbygging við skólahúsið með afar góðri aðstöðu fyrir raungreinakennslu ásamt fyrirlestrasal og snyrtiaðstöðu.

1996 var tekin í notkun ný hæð sem hafði verið reist ofan á þessa viðbyggingu. Þar eru nútímaleg heimavistarherbergi og setustofa. Þessi heimavist hlaut nafnið Fjarvist.

Fram til 1970 var mötuneyti skólanna sameigin­legt í héraðsskólanum. Með fjölgun nemenda þótti nauðsynlegt að rekið yrði sérstakt mötu­neyti fyrir menntaskólann í hátíðasal skólans og var það tekið í notkun 1970. Þar er það enn í dag. 1997-98 var mötuneytið og eldhúsið endurnýjað frá grunni og þar er nú aðstaða eins og best verður á kosið.

Bókasafn skólans var lengst af í kennslustofu í skólanum, en árið 1996 var það flutt í hús héraðs­skólans og þá sameinað bókasafni héraðs­skólans. 1997 bættust við safnið bókasafn Laugardalshrepps og bókasafn Húsmæðraskól­ans. Fullkomið tölvuver var sett upp í stofunni sem hýsti áður bókasafnið, árið 1999.

Bókasafn skólans var aftur flutt í Menntaskólahúsið haustið 2006, í afar góða aðstöðu á efstu hæð. Stofa íslenskra fræða við ML fékk þar með framtíðaraðstöðu á safninu.

Námið

Frá stofnun til 1965 var námsárið ein heild með lokaprófi að vori. 1965 var skólaárinu skipt upp í þrjár annir: haustönn, miðönn og vorönn, með prófum við lok hverrar annar. Veturinn 1980-81 var síðan tekið upp tveggja anna kerfi við skól­ann.
Íþróttakennaraskóli Íslands annaðist alla íþrótta­kennslu við skólann frá 1972-98, en þá réði skólinn íþróttakennara til starfa.
Skólanum var falið að taka héraðsskólann að sér frá 1991-1996. Óskar H. Ólafsson hafði umsjón með því starfi. Í héraðsskólanum voru þá tveir efstu bekkir grunnskóla.
Ýmsar breytingar á kennsluháttum áttu sér stað á þessum árum og fengu þær staðfestingu með nýrri reglugerð um menntaskóla 1971. Frá 1975 fram að þeim tíma sem ný aðalnámskrá fyrir fram­haldsskóla tók gildi árið 1999, var kennslu­skipan mikið til óbreytt utan að árið 1998 útskrif­uð­ust síðustu stúdentarnir af eðlisfræðideild skól­ans. Lítil aðsókn hafði verið að deildinni undan­farin allmörg ár. Á móti var tekin upp meiri eðlis­fræði- og stærðfræðikennsla í náttúru­fræði­deild.
Árið 2000 breyttist náttúrufræðideild í náttúru­fræðibraut og máladeild í málabraut skv. nýrri námskrá menntamálaráðuneytisins. Síðustu nemendur skv. eldra námsskipulagi útskrifuðust vorið 2004.
Haustið 2000 hófst kennsla við 3ja ára starfsnámsbraut, íþróttabraut. Brautin var rekin sem þróunarverkefni til vorsins 2004. Hún var skilgreind þannig, að með því að bæta við einu ári gátu nemendur lokið stúdentsprófi af brautinni. 
Haustið 2005 voru fyrstu nemendurnir innritaðir á félagsfræðabraut og nemendur voru innritaðir á málabraut í síðasta sinn haustið 2008. 

Viltu senda inn athugasemd?

Er eitthvað sem þér finnst vanta á þessa síðu?

Sendu póst