Menu

Eins og vænta má hafa skapast ýmsar hefðir í kringum skólastarfið. Hér er tæpt á nokkrum, sem geta haft áhrif á daglegt starf í skólanum.

Kaffitímar

Um er að ræða að nemendur bjóði kennara í kaffi í einum tíma á hvorri önn. Kennara er frjálst að samþykkja slíkt eða hafna. Reyndin hefur orðið sú að þessir tímar eru notaðir til að spjalla um heima og geima, en æskilegast er þó að þeir séu notaðir sem þáttur í kennslu.

Göngufrí

Nemendur bjóða kennara í göngu í einum tíma á hvorri önn. Kennara er frjálst að samþykkja slíkt eða hafna.

Húsþing

Skólameistari kallar til húsþings þegar hann þarf að koma áríðandi erindum til allra nemenda. Þá er bjöllunni hringt tvisvar. Húsþing eru mismunandi að lengd, frá 5 mínútum til 20.

Söngsalur

Einu sinni á hvorri önn hefja nemendur söng fyrir framan skrifstofu skólameistara og biðja með þeim hætti um leyfi til að nota næstu kennslustund til söngs. Sé söngurinn með þeim hætti að skólameistari telur hann boðlegan, veitir hann leyfi sitt.

Dagamunur og Dolli

Í vikunni fyrir árshátíð hefur skapast sú venja á miðvikudegi og fimmtudegi, að í stað hefðbundins skólahalds gera nemendur sér dagamun með því að sækja ýmis konar námskeið, fundi eða aðrar samkomur. Á föstudegi á Dolli sér stað, en hann felst í ýmisskonar þrautakeppni nemenda og starfsfólks. Reiknað er með að kennarar leggi fram krafta sína með því að standa að einhverjum þætti í starfinu á þessum dögum.

Fjallganga

Að hausti, oftast fyrir lok september, skunda nemendur og kennarar skólans á fjall í nágrenninu. Það er í hendi skólameistara að hafa forgöngu um fjallgönguna og að skipuleggja hana.

Viltu senda inn athugasemd?

Er eitthvað sem þér finnst vanta á þessa síðu?

Sendu póst