Menu

Merki_MLMerki skólans

Sveinn Þórðarson skólameistari ákvað að Hvítbláinn skyldi vera í merki skólans. Einkunnarorðin þrjú sem eru í merkinu: manngildi, þekking og atorka, eru þýðing Baldvins Einarssonar á hugtakinu "humanismus" eða húmanismi.

 

 

 

 

Fáni skólans hvitblainn

Við útför Einars Benediktssonar var kista hans sveipuð bláhvíta fánanum sem hann hafði barist fyrir að yrði þjóðfáni Íslendinga. Már, sonur Einars, fól Jónasi Jónssyni frá Hriflu að varðveita fánann og ráðstafa honum á viðeigandi hátt. Við stofnun Menntaskólans að Laugarvatni, 12. apríl 1953, færði Jónas honum þennan fána að gjöf og verður hann að teljast ein merkasta eign skólans. Mun Jónas hafa haft í huga að með gjöfinni mætti stuðla að áhuga æskunnar á verkum þjóðskáldsins.

(Heimild: Menntaskólinn að Laugarvatni - Forsaga, stofnun og saga til aldamóta. Sögusteinn 2001).

 

Skólasöngurinn

Til fánans

Rís þú unga Íslands merki,
upp með þúsund radda brag.
Tengdu' í oss að einu verki
anda, kraft og hjartarlag.
Rís þú, Íslands stóri, sterki
stofn, með nýjan frægðardag.     

Skín þú, fáni, eynni yfir
eins og mjöll í fjallahlíð.
Fangamarkið fast þú skrifir
fólks í hjartað ár og síð.
Munist, hvar sem landinn lifir,
litir þínir alla tíð.
                    Einar Benediktsson

 

Sveinn Þórðarson, skólameistari, ákvað að ljóðið "Til fánans" skyldi vera söngur skólans. Um leið mótaði hann þá hefð, að á fæðingardegi Einars Benediktssonar, 31. október, skyldi skáldskapur hans kynntur fyrir nemendum skólans.

Skólasöngurinn er sunginn við lag Björgvins Guðmundssonar. Það lag hefur verið notað síðan í skólameistaratíð Jóhanns S. Hannessonar, en áður var notað lag Sigfúsar Einarssonar.

Viltu senda inn athugasemd?

Er eitthvað sem þér finnst vanta á þessa síðu?

Sendu póst