Á köldum febrúarmorgni, þann sjötta nánar tiltekið, lögðu nemendur í 2F af stað í vettvangsferð til Reykjavíkur. Þau nema nú stjórnmálafræði og ferðuðust í fylgd með kennara sínum, Freyju Rós Haraldsdóttur og bílstjóranum Pálma Hilmarssyni. Að þessu sinni heimsóttu þau Alþingi og Bessastaði og enduðu í hádegisverði á Grillhúsinu.
Færðin setti strik í reikninginn og varð til þess að heimsókn í Alþingi var í styttri kantinum. Sigríður Helga leiðsagði okkur um húsið og deildi ýmsum fróðleik um störf þingsins. Henni gekk vel að velja úr aðalatriðin og þetta var fróðlegt og skemmtilegt, þó stutt væri. Það er upplifun að sjá með eigin augum inn í Alþingishúsið og setja sig í spor okkar kjörnu fulltrúa. Vilhjálmur Árnason, þingmaður úr Suðurkjördæmi, slóst í hópinn í Alþingishúsinu. Hann hvatti nemendur til að láta sig stjórnmál varða og útskýrði hvernig það er að starfa sem þingmaður.
Næst lá leiðin á Bessastaði þar sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson tók vel á móti hópnum, alþýðlegur að vanda. Það sköpuðust fróðlegar, líflegar og skemmtilegar umræður við kaffiborðið. Boðið var upp á kleinur, te og kaffi. Kaffið var af bestu sort, "besta kaffi sem ég hef smakkað", höfðu nokkur á orði.
Þakkir til allra sem tóku þátt. Það er stór viðbót við stjórnmálafræðiáfangann að komast í svona ferð.
Freyja Rós Haraldsdóttir kennari
Myndir úr ferðinni eru hér.
Föstudaginn 2. febrúar lögðum við af stað til Reykjavíkur, öll frekar svekkt yfir því að ferðinni til Akureyrar hafi verið frestað en ákveðin í að reyna að gera það besta úr ferðinni.
Við vorum mætt í Egilshöllina kl 14 og skelltum okkur á skauta í klukkutíma. Það var mjög skemmtilegt á skautum. Fólk kunni mis mikið á skauta fyrir fram en allir reyndu sitt besta sem er það eina sem skiptir máli.
Eftir skautana lá leið okkar í Reykjavík Escape sem var mjög skemmtilegt. Þetta var hæfilega erfitt og góð æfing í hópavinnu. Næst lá leiðin aftur í Egilshöllina og þá í keilu. Eins og á skautum var færnin mis mikil en allir virtust skemmta sér vel.
Eftir keilu fóru flestir í bíó og síðan fórum við heim á Laugarvatn.
Morguninn eftir mættum við í Bláfjöll um kl. 10. Flestir leigðu skíði, fengu kennslu í undirstöðuatriðum og voru síðan bara farnir sína leið. Veðrið var gott og færið fínt svo tíminn leið frekar hratt. Síðustu skíðakapparnir komu í rútna rúmlega kl 17 enda var þá búið að loka öllum lyftum og við orðin mátulega þreytt og tilbúin til að fara í sund.
Við enduðum ferðina á því að fara á grillhúsið áður en við brunuðum austur.
Þrátt fyrir það að fara ekki norður á skíði var þessi helgi mjög skemmtileg, og það kennir manni að plan-A er ekki alltaf betra en plan-B.
Takk fyrir frábæra ferð
Guðrún Karen 1.N
Arnar Dór Ólafsson í 3F tók myndirnar sem eru hér.
Í gær var kjörfundur í ML þar sem nemendur kusu sér nýja nemendafélagsstjórn. Þegar talið hafði verið upp úr kjörkössum urðu úrslit ljós og nýja stjórn Mímis skipa:
Stallari - Sigríður Helga Steingrímsdóttir
Varastallari - Sunneva Sól Árnadóttir
Gjaldkeri - Ástráður Unnar Sigurðsson
Vef- og markaðsfulltrúi - Álfheiður Björk Bridde
Árshátíðarformenn - Esther Helga Klemenzardóttir og Högni Þór Þorsteinsson
Jafnréttis- og skólaráðsfulltrúar - Ingunn Ýr Schram og Þórný Þorsteinsdóttir
Ritnefndarformaður - Ólafía Sigurðardóttir
Íþróttaformenn - Orri Bjarnason og Þorfinnur Freyr Þórarinsson
Tómstundaformaður - Sölvi Rúnar Þórarinsson
Skemmtinefndarformenn - Andrés Pálmason og Halldór Friðrik Unnsteinsson
Nýkjörnum stjórnarmeðlimum er óskað til hamingju með kjörið og velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum.
Hér eru myndir af nýkjörnum og fráfarandi stjórnarliðum.
VS
Er eitthvað sem þér finnst vanta á þessa síðu?