Þjónusta

Þjónusta í ML

Þjónusta af ýmsu tagi, sem nemendum er veitt, er talvert umfangsmikill þáttur í rekstri skólans, enda um að ræða heimavistarskóla. Hér skal fyrst nefnt mötuneytið sem framreiðir fjórar máltíðir á dag, einnig þvottahús sem skilar þvotti nemenda samanbrotnum daginn eftir að þeir koma með óhreina tauið. Þar fyrir utan eru starfsmenn, hvort sem það er húsbóndi á heimavist og hans fólk eða aðrir starfsmenn skólans, ekki síst námsráðgjafi, vakandi og sofandi yfir velferð nemenda. 

 

Mötuneyti

Mötuneyti ML er sjálfseignarstofnun með sjálfstæða kennitölu undir yfirstjórn skólanefndar.  Skólameistari er ábyrgur fyrir rekstri mötuneytisins í umboði skólanefndar og bryti/matreiðslumeistari sér um daglegan rekstur, stjórnun, innkaup og eldamennsku.  Gjaldkeri/bókari sér um viðskiptamannabókhald, greiðslu reikninga, launavinnslu og innheimtu.

Mötuneytið er rekið á svonefndum núll-grunni, þ.e. markmiðið er að það sé rekið með lágmarks hagnaði.  Mötuneytið er til að þjónusta nemendur og starfsmenn með góðum heimilismat þar sem gætt er að hollustu á sanngjörnu verði.  Allir nemendur sem dvelja á heimavistum skólans eru í fullu föstu fæði virka daga.  Um helgar eru svonefnd helgarkort sem götuð eru eftir notkun.  Nemendur skrá sig inn á fæði um helgar.  Nemendur utan heimavista og starfsmenn geta keypt einstakar máltíðir með skráningu á þar til gert blað í mötuneyti.  Mötuneytið gerir, eftir þörf og óskum, samninga um sölu fæðis við verktaka sem vinna á vegum skólans og/eða aðra verktaka.  Verðlagning þess er með öðrum hætti en annarra og er hagnaður vegna þess nemendum til hagsbóta.

Í mötuneytinu starfa, auk bryta/matreiðslumeistara, fjórir matráðar á vöktum.

Opnunartími mötuneytis

Morgunmatur er á tímabilinu 7:30-8:30

Hádegismatur er á tímabilinu 12:15-13:10

Miðdagskaffi er á tímabilinu 15:20-16:00

Kvöldmatur er á tímabilinu 18:00-19:00

Um helgar er morgun/hádegisverður á
tímabilinu 10:00-13:00 og kvöldmatur á tímabilinu 18:00-19:00

Þvottahús

Í ML er starfrækt þvottahús fyrir nemendur.  Það er staðsett í kjallara skólahúsnæðisins.

Nemendur koma með óhreinan merktan þvott, með þvottanúmeri sem þeim er úthlutað, og flokka sjálfir í þar til gerða bala.  Að jafnaði geta nemendur sótt hreinan þvottinn, samanbrotinn einum eða tveimur dögum síðar, í merktar þvottgrindur sínar. 

Þvottahúsið ber ekki ábyrgð á týndum eða skemmdum þvotti nema sannanlega sé það vegna handvammar starfsmanna eða bilaðra tækja. Nemendum ber að fylgjast með því að þvottanúmerin séu ávallt auðlesanleg á þvottinum.

Nemendur greiða þvottahúsgjald sem er óháð notkun þeirra skv. gjaldskrá (sjá neðar).  Þjónusta þvottahúss er innifalin í heimavistargjaldi nemenda.  Í þvottahúsi starfa tveir þvottatæknar í einu og hálfu stöðugildi.  Þessi störf heyra undir umsjónarmann fasteigna.

    Menntaskólinn að Laugarvatni

    Hafðu samband við ML

    Menntaskólinn að Laugarvatni

    Skólatúni 1
    840 Laugarvatn

    Upplýsingar

    Netfang: ml@ml.is
    Sími: (354) 480 8800
    Kennitala: 460269-2299

    Hvar er
    Menntaskólinn að Laugarvatni?