Nám og kennsla
Umsjónarkennarinn
Hver bekkur hefur sinn umsjónarkennara sem skipuleggur fastan vikulegan umsjónartíma bekkjarins. Hver nemandi fær eitt einstaklingsviðtal við umsjónarkennara sinn á vetri þar sem hugað er að gengi í náminu, líðan í skólanum, á vistinni og félagslegri stöðu. Ef sérstök ástæða er til er umsjónarnemandi kallaður í aukaviðtal og nemendur geta alltaf leitað til síns umsjónarkennara. Hvatt er til góðra samskipta á milli umsjónarkennara og foreldra/forráðamanna ólögráða nemenda.
Umsjónarkennari er talsmaður nemenda gagnvart skólayfirvöldum og öðrum kennurum. Hann leggur sig fram um að öðlast traust nemenda og kemur spurningum þeirra eða athugasemdum á framfæri og fylgir þeim eftir, eftir eðli máls hverju sinni. Námstækni, lífsstíll og samskipti eru meðal þess sem er gjarnan tekið fyrir í umsjónartímum. Umsjónarkennarinn hefur líka það hlutverk að tryggja bekknum fræðslu um ýmis hagnýt mál sem snerta skólagönguna, svo sem reglur, tæknimál, skipulag og þjónustu.
Á listanum yfir starfsfólk skólans kemur fram hver er umsjónarkennari hvers bekkjar. Þar má einnig finna upplýsingar um viðtalstíma og tölvupóstföng kennara.
Miðannarmat
Um miðbik hverrar annar skrá kennarar miðannarmat í Innu. Miðannarmat byggir oftar en ekki á niðurstöðum úr námsmati sem þegar hefur farið fram (prófum eða verkefnum). Einnig er um að ræða huglægt mat kennarar á frammistöðu, ástundun og vinnubrögðum.
Miðannarmatið er ekki hefðbundin einkunn eins og tíðkast í annarlok, að undangengnu öllu námsmati áfangans, heldur vísbending um stöðu mála eins og kennarar meta hana á þeim tímapunkti. Með bættum vinnubrögðum ættu allir að geta snúið við blaðinu, gefi miðannarmatið tilefni til þess, og náð ásættanlegri lokaniðurstöðu.
Í skóladagatali (á forsíðu ml.is – sjá mynd 1) kemur fram hvenær áætlað er að kennarar skili miðannaramati.
Til að sjá miðannarmatið á Innu (sjá mynd 2) er smellt á „Námið” og svo “Einkunnir“. Miðannarmatið birtist þar fyrir neðan Lokaeinkunnir.
Foreldrar og nemendur eru hvattir til að skoða matið gaumgæfilega. Þá er um að gera að hafa samband við kennara ef frekari útskýringa er óskað, eða til að ræða um leiðina fram á við.
Menntaskólinn að Laugarvatni
Hafðu samband við ML
Menntaskólinn að Laugarvatni
Skólatúni 1
840 Laugarvatn
Upplýsingar
Netfang: ml@ml.is
Sími: (354) 480 8800
Kennitala: 460269-2299
Hvar er
Menntaskólinn að Laugarvatni?