NEMEL

Nemendasamband Menntaskólans að Laugarvatni eða NEMEL stendur á hverju ári fyrir Júbilanta hátíð í kringum brautskráningu ML. 

NEMEL stóð einnig fyrir að búa til myndasafn sem unnið var fyrir gjafafé frá útskrifuðum nemendum ML. Myndasafn Nemel var sett inn á Flickr á árunum 2016-2017. Skannaðar voru inn myndir úr starfi og félagslífi ML.

Um NEMEL

Nemendasamband Menntaskólans að Laugarvatni, eða Nemel eins og það er oftast kallað, var stofnað þann 16. júní 1965. Stofnfundurinn var haldinn á Mímisbar á Hótel Sögu í tengslum við hið árlega sextándaball sem á þessum árum var heilmikið húllumhæ með borðhaldi og dansi. Í lögum nemendasambandsins segir að markmið þess sé að „efla kynni milli eldri og yngri stúdenta frá Laugarvatni, stuðla að vexti og viðgangi skólans og standa vörð um hagsmuni hans og sögu”. Meðal fyrstu verka sambandsins var að útbúa skrá með upplýsingum um félagsmenn og enn í dag er listi með nöfnum, kennitölum og heimilisföngum útskrifaðara nemenda dýrmætasta eign Nemel. Starfsemin hefur verið nokkuð brokkgeng og í seinni tíð hefur hún aðallega falist í útgáfu fréttabréfs og unirbúningi fyrir útskriftarafmæli. Ritun sögu Menntaskólans að Laugarvatni er án efa merkasta afrek nemendasambandsins og þar er að finna eftirfarandi um Nemel:

„Eftir þessa kraftmiklu byrjun varð lítið úr annarri starfsemi en fundi og samkomu hinn 16. júní auk þess sem undirbúin var heimsókn afmælisárgana að Laugarvatni á hverju ári. Á aðalfundi árið 1973 steig nýstúdentinn Ingimar Ingimarsson í pontu og lýsti undrun sinni á takmarkaðri starfsemi félagsskaparins og kvað hann „engan gaum gefa málefnum skólans eða styrkja hann í baráttunni fyrir tilveru sinni“. Næstu stjórnir reyndu að bæta úr þessu með kvöldvökuhaldi í skólanum og skrifum í Mímisbrunn. Allt seig þó í sama farið og meira að segja vinsældir sextándaballsins dvínuðu svo að seglin voru rifuð árið 1990 og borðhaldi hætt.

Þegar svo var komið dugði ekki annað en kröftugt átak til að blása nýju lífi í sambandið.  Þegar stjórnin 1990-1991 kom saman til „árlegra vorverka“ var rætt um aðferðir til þess að blása nýju lífi í sambandið. Svo fór að stjórnin bauð sig fram í heilu lagi til endurkjörs og hluti hennar sat allt til 1993 og dreif starfsemina upp. Júbílantaráði var komið á fót til að sjá um hefðbundnar samkomur en stjórnin, með Pál V. Bjarnason í broddi fylkingar, tölvuskráði alla félaga sambandsins, hóf útgáfu fréttabréfsins Benjamíns árið 1992 og bryddaði upp á krárkvöldum sem nutu mikilla vinsælda um nokkurt skeið.“

Starfsemi Nemel er fjármögnuð með félagsgjöldum en þau hafa verið 1000 krónur í all mörg ár. Heimtur hafa því miður verið lélegar og eðlilega setur það starfseminni skorður.

Skönnun mynda

Skólaárið 2016-2017 vann Páll Skúlason fyrrverandi aðstoðarskólameistari að því að afla mynda, skanna inn og setja í myndasafn Nemel. Myndirnar eru flestar úr félagslífi nemenda Menntaskólans að Laugarvatni frá upphafsárum skólans fram til stafrænu aldarinnar eða rétt fram yfir aldamótin 2000. Stór hluti myndasafnsins kom frá Rannveigu Pálsdóttur en einnig eru þar myndir frá hinum ýmsu aðilum sem hafa tengst skólanum á einhvern hátt.

Leitarorð í myndasafni geta td. verið eftirfarandi:

  • Ártal með ML fyrir framan t.d. ML1964