Rafræn vöktun ML

Rafræn vöktun með öryggismyndavélum í og við húsnæði skólans byggir á lögmætum hagsmunum og er metin nauðsynleg á grundvelli öryggis og eignavörslu. Ábyrgðaraðili er Menntaskólinn að Laugarvatni. Tilgangur rafrænnar vöktunar er að varna því að eigum sé stolið, þær séu skemmdar eða farið sé um húsnæði skólans í leyfisleysi, auk þess að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks. Verklagsregla þessi byggir á reglum um rafræna vöktun nr. 50/2023. Vinnsla persónuupplýsinga sem verður til við rafræna vöktun byggir á heimildum skv. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018:

  • Að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila.
  • Að vinnslan sé nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings.

Þá skal framhaldsskóli haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis (33. gr. framhaldsskólalaga nr. 92/2008).

Skólameistari er ábyrgur fyrir því að unnið sé í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og reglur um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun nr. 837/2006 og að farið sé eftir lögum um framhaldsskóla.
Umsjónarmaður fasteigna hefur eftirlit með virkni öryggismyndavélanna.
Persónuverndarfulltrúi veitir ráðgjöf varðandi persónuverndarmál, fylgist með að farið sé að ákvæðum gildandi laga um persónuvernd og er tengiliður við Persónuvernd.

Staðsetning myndavéla og merkingar
Öryggismyndavélar eru 5 talsins, staðsettar við innganga í skólahúsnæði og á bílaplani heimavistarhúsa og skóla. Sérstakar merkingar eru settar upp um öryggismyndavélarnar til að gera öllum sem eiga leið um lóðina og húsnæðið viðvart um vöktunina.

Varðveisla, skoðun myndefnis, afhending og andmæli
Myndefni sem verður til við rafræna vöktun er vistað á sérstökum aðgangsstýrðum netþjóni innan skólans. Það er aðeins skoðað ef upp koma atvik sem varða eignavörslu og/eða öryggi, s.s. þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Myndefnið geymist að hámarki í 30 daga og eyðist sjálfkrafa.

Sá sem sætt hefur rafrænni vöktun á rétt á að skoða myndbandsupptökur sem til verða um hann við vöktunina. Skólameistari hefur heimild til ákveða að upplýsingarnar sem verða til við vöktunina skuli skoðaðar. Skriflegri beiðni um leit í upptökum eftirlitsmynda-véla skal komið á framfæri við skólameistara. Tilgreina skal tilefni og tímamörk umbeðinnar leitar og upplýsingar um þann sem biður um leit. Skólameistari skal heimila skoðun jafn fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku slíkrar beiðni.

Skólameistari, staðgengill hans og umsjónarmaður fasteigna hafa einir heimild til að skoða upplýsingar úr rafrænni vöktun. Myndefni, sem verður til við rafræna vöktun, er ekki afhent þriðja aðila og ekki unnið með þær nema með samþykki þess sem upptakan er af eða með heimild Persónuverndar. Undantekning frá þessu er að heimilt er að afhenda lögreglu upptökur, varði þær upplýsingar um slys eða meinta refsiverða háttsemi.

Andmælum við framkvæmd vöktunar eða ábendingum um að vöktun uppfylli ekki kröfur í þessari verklagsreglu eða lögum, skal koma á framfæri í tölvupósti á netfangið personuvernd@ml.is. Andmæli og málsmeðferð er skráð í skjalastjórnarkerfi skólans.

 

Menntskólinn að Laugarvatni | Skólatúni 1 |840 Laugarvatni| Sími 480 8800 | ml@ml.is