Lífsleikni er geta til að laga sig að mismunandi aðstæðum og breyta á jákvæðan hátt. Sú geta gerir okkur kleift að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs. Lífsleikni felst í samræðunni við okkur sjálf og umhverfi okkar þar sem rými er skapað til þess að dýpka þann skilning.

Áhersla er lögð á að efla sjálfsmynd nemandans og trú hans á eigin getu en jafnframt gera hann meðvitaðan um þá ábyrgð sem hann hefur í samskiptum við aðra. Gerð er krafa um að nemendur skoði markvisst persónu sína og endurskoði markmið sín og lífstíl. Nemendur kynnast því hvernig þeir geta haft bein og óbein jákvæð áhrif á samfélagið sitt. Í áfanganum er unnið að því að styrkja félagstengsl milli nemenda, undirbúa þá til að takast á við krefjandi nám og leggja þannig grunn að frjóu menntasamfélagi. Eitt af markmiðunum er að nemendur eflist í að koma fram af virðingu við aðra í fjölmenningarlegu þjóðfélagi. Nemendur eru hvattir til að yfirfæra þá þekkingu og vinnubrögð sem þeir öðlast yfir á aðrar námsgreinar og út í lífið almennt. Nemendur fá tækifæri til að vinna við margvísleg viðfangsefni á fjölbreyttan og skapandi hátt. Viðfangsefni lífsleikninnar eru breytileg en geta tekið mið af eftirfarandi: sjálfsmynd og samskiptum, tilfinningum og tilfinningagreind, kynheilbrigði, skapandi hugsun og leikrænni tjáningu, menningu og listum, lýðræði, mannréttindum og skiptingu lífsgæða svo nokkuð sé nefnt.

Námsgrein: 
Lífsleikni
Þrep: 
1. þrep
Einingafjöldi: 
2 einingar
Forkröfur: 
Engar