Í þessum áfanga kynnumst við þroskasálfræðinni og sögu hennar, hugtökum, rannsóknaraðferðum og helstu álitamálum, t.d. hlut erfða og umhverfis við mótun einstaklinga. Fjallað verður um þroskaferil manneskjunnar allt frá fæðingu til grafar og mikilvægi líkamlegrar og andlegrar umönnunar og örvunar fyrir þroska barns.
Sérstaklega er tekinn fyrir þroski tilfinninga, félagslegra samskipta, hugsunar og greindar. Áhersla er lögð á þroska sjálfsmyndarinnar og hvernig hún mótast með aldrinum. Einnig verður vikið að þroskahömlun og þær skoðaðar út frá líffræðilegu og sálfræðilegu sjónarhorni. Nemendur æfa sig í að skoða eigin þroska út frá mismunandi þroskakenningum og greina þá þætti sem hafa mótað þá í lífinu. Nemendur fá æfingu í að rökræða álitamál eins og barneignir táninga, fóstureyðingar eða starfslok. Mótunaráhrif fjölskyldu og vina verða skoðuð og komið inn á vandamál barna og unglinga (t.d. geðræn, tilfinningaleg, líkamleg, náms- eða hegðunarvandamál). Viðfangsefnin geta verið breytileg og mótast af áhuga nemenda.