170 menntaskólanemar syngja í Skálholti

Síðastliðið vor fór kór Menntaskólans að Laugarvatni í ágæta ferð til Danmerkur. Þar sungu krakkarnir með tveimur öðrum kórum í Godthåbskirken í Frederiksberg afar vel heppnaða tónleika og einnig var aðeins ferðast um nágrenni Kaupmannahafnar.
Nú er skemmst frá því að segja að hingað eru nú komnir til okkar þessir kórar ásamt kennurum og stjórnendum að endurgjalda þá heimsókn. Samtals eru þetta rúmlega 100 manns og gista allir í Farfuglaheimilinu hér á Laugarvatni alla dagana sem þeir eru hér á landi. Þau komu til landsins seinni partinn á miðvikudag og var þá boðið til kvöldverðar í ML. Á fimmtudagsmorgun fóru svo dönsku kórarnir í Skálholt til æfinga fram að hádegi. Þá var dagurinn brotinn upp og ekið að Gullfossi þar sem flestir fengu sér í svanginn eftir skoðun á fossinum. Þaðan að Geysi og síðan aftur í Skálholt til frekari æfinga. Á meðan var kór ML sóttur og þá var nú farið að fjölga vel í kirkjunni. Þarna var kominn saman kór með 170 krökkum sem gerist nú ekki á hverjum degi og hljómaði svona líka vel í Skálholti fyrir nær fullu húsi. (sjá myndir)

Í dag, föstudag eru svo Danirnir að skoða sig um í höfuðborginni og á Þingvöllum en koma svo aftur hingað í kvöld. Á morgun, laugardag fer hátt í helmingur þeirra í hellaferð með Laugarvatn Adventure sem býður upp á slíkar ferðir hér á Laugarvatni. Þó nokkrir ætla svo í hestaferð með Eldhestum í Hveragerði og afgangurinn hyggst nýta daginn í gönguferðir um nágrennið, klífa fjallið og fara svo í Fontana. Fátt sem gefur betri slökun en láta líða úr sér þar eftir góða göngu. Lokakvöldverður þeirra verður svo á Lindinni og er von á að þegar þeir fari heim á sunnudag muni kórar Frederiksberg Gymnasium og  Vesthimmerland Gymnasium eiga góðar minningar úr heimsókn sinni á Laugarvatn.

Við þökkum þeim fyrir komuna.

Pálmi Hilmarsson.

/pms