danmork 2nDagana 14. – 19. apríl dvöldu 20 nemendur úr 2. bekk náttúrufræðibrautar í Danmörku, en hér var um að ræða að endurgjalda heimsókn frá nemendum Vest Jysk Gymnasium sem er í Tarm á vestur Jótlandi. Það voru þær Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðikennari og Jóna Katrín Hilmarsdóttir, enskukennari sem undirbjuggu þessi samskipti, en umfjöllunarefnið skyldi tengjast líf- og vistfræði og samskiptin skyldu fara fram á ensku. Verkefnið naut styrks frá Nordplus.

Ferðin hófst með flugi til Kaupmannahafnar að morgni sunnudags 14. apríl. Eftir skamma viðdvöl á Kastrup flugvelli flutti lest hópinn til Herning á Jótlandi, en þar tók fólksflutningabifreið við og flutti hópinn í áfangastað í VGT Hytten, sem er hús í eigu skólans í Tarm, en það er í um 100 metra fjarlægð frá ströndinni.  Þarna tóku dönsku nemendurnir á móti hópnum með kvöldverði.

 

Daginn eftir lá leið í Givskud Zoo og Legoland. Á öðrum degi var ekið til Viborg. Þar lá leiðin í dómkirkjuna, áður en haldið var í Foulum landbúnaðarrannsóknastöðina, þar sem nemendur hlýddu á fyrirlestur um rannsóknir á kúm, sérstaklega með tilliti til þess magns gróðurhúsalofttegunda sem þær gefa frá sér. Ennfremur voru valdir hlutar stöðvarinnar skoðaðir með góðri leiðsögn.

Eftir heimsóknina til Foulum var komið að því að skoða kalksteinsnámurnar í Mönsted, en þær eru ekki nýttar lengur og orðnar að ferðamannastað. Deginum lauk með kvöldverði á ónefndum skyndibitastað.

Síðasta daginn á vestur Jótlandi var farið víða um nágrenni Tarm – ekið umhverfis Ringköbing fjörðinn, til Hvide Sande bæjarins þar sem er talsverð útgerð, afar vel búinn, 400 nemenda skólinn í Tarm var skoðaður og hópurinn kynnti sér endurheimt votlendis í ósum Skjærn árinnar.

Að morgni 18. apríl var haldið áleiðis til Kaupmannahafnar og þar sinnti hópurinn hinu og þessu, sem of langt mál yrði að gera grein fyrir hér. Af óskýrðum ástæðum virtust þjónustufyrirtæki sem sinna líkamsmerkingum, njóta óþægilega mikilla vinsælda. 

Starfsmenn sem fylgdu hópnum voru Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðikennari, sem var fararstjóri, Erla Þorsteinsdóttir, húsfreyja á heimavist og Páll M Skúlason, aðstoðarskólameistari. 

Eins og oft þá segja myndir meira en mörg orð, og þær er að finna hér, en samt er rétt að geta þessa að þessi ferð tókst afskaplega vel og „tusind tak til vores nye danske venner í Tarm“. Það má segja með rökum að nemendur í 2N hafi kynnst hvert öðru með nýjum hætti í ferðinni, en það má einna helst þakka því, að í húsinu á ströndinni var ekki um að ræða að horfa á sjónvarp eða tengjast interneti.

-pms