hufurBrautskráning stúdenta og skólaslit Menntaskólans að Laugarvatni voru þann 26. maí að viðstöddu fjölmenni.  Af 32 nýstúdentum voru 14 af félagsfræðabraut, 3 af málabraut og 15 af náttúrufræðabraut. Hæstu einkunn nýstúdenta hlaut Jóhanna Ýr Bjarnadóttir frá Flúðum, stúdent af félagsfræðabraut, en Dux Scholae á þessu vori er Þjóðbjörg Eiríksdóttir frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, en hún hlaut einkunnina 9,97. Hún  lauk 2. bekk náttúrufræðabrautar. 

Fjórir nýstúdentar hlutu styrk úr styktarsjóði Kristins og Rannveigar. Þetta voru þær Jóhanna Ýr Bjarnadóttir, Helga Hrönn Karlsdóttir, Bryndís Gígja Gunnarsdóttir og Elma Jóhannsdóttir. Þá hlutu margir nýstúdentanna viðurkenningar fyrir námsárangur eða félagsstörf í þágu nemenda.

Júbílantar fjölmenntu og komu færandi hendi eins og þeirra er von og vísa..

Við athöfnina voru tveir starfsmenn skólans kvaddir, en það eru þær Hrafnhildur Ólafsdóttir og G. Berglind Pálmadóttir (Linda húsfreyja).

johannayrKór skólans söng við athöfnina, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur.

Síðastliðið haust voru nemendur skólans 167, en 164 þeirra gengust undir vorannar- og stúdentspróf. Skólinn er því fullsetinn og umsóknir um skólavist fyrir næsta vetur benda til að enn fjölgi. Það verða teknir inn 52 nemendur í 1. bekk, en með mjög litlu brottfalli nemenda í efri bekkjum stefnir í að afla þurfi viðbótar heimavistarrýmis.

-pms

myndir frá athöfninni