eldhusFyrir löngu, löngu síðan tíðkaðist það, væntanlega ekki síst til að spara aðkeypt vinnuafl og lækka þannig kostnað, að nemendur skólans skiptust á að vinna í matsalnum: leggja á og taka af borðum og ganga síðan frá eftir máltíðir með því að vaska upp og þrífa eftir atvikum. Það voru yfirleitt tveir sem þannig voru saman í þessu og unnu þá í kringum allar máltíðir dagsins.  Með þessu móti var hver nemandi í matsalnum einu sinni til tvisvar yfir veturinn.  Þá var einnig sú tíð að nemendur 4ða bekkjar sáu um þrif á heimavistum, í það minnsta.

Þessi þátttaka nemenda í störfum innan skólans, öðrum en eigin námi, rann sitt skeið með tíð og tíma.

Fyrir nokkrum árum fór nemendur 4ða bekkjar aftur að sinna ýmsum mikilvægum störfum innan húss, gegn greiðslu í ferðasjóð sinn. Hér er um að ræða: vikulega stoðtíma í stærðfræði fyrir nememndur 1.-3. bekkja, gæslu í bókasafni á eftirmiðdögum, ruslatínslu í umhverfi skólans, og eftirlit með því hvort nemendur eru á útiskóm innandyra. Í vetur eru nemendur fleiri en um langan tíma, eða 180, þar að auki fjölgar stöðugt nemum af menntavísindasviði HÍ hér á Laugarvatni sem nýta sér stakar máltíðir í mötuneytinu. Það hefur því orðið að ráði, að nemendur 4ða bekkjar skipti á sig vinnu kringum þrjár kvöldmáltíðir í viku, gegn framlagi mötuneytisins í ferðasjóð. 

Sá sem ritar ofangreint, kann að fara rangt með einhverjar staðreyndir úr fortíð. Sá eða þeir sem vita betur, mega gjarnan hafa samband, því fortíðin er áhugaverð í þessu sem ýmsu öðru.

-pms