Nemendur í jarðfræði á 3ja ári og útivistarval 1. bekkjar fóru saman í dagsferð um Reykjanesið síðastliðinn mánudag. Upphaflega planið var að ganga að gosinu, en þar sem gosið hefur legið í dvala í nokkurn tíma núna og vegna þess hve kalt það var, höguðum við seglum eftir vindi. Fyrst gengu allir saman í Krýsuvík og sáu þar fjölbreytta hveri. Næst var útivistarhópurinn skilinn eftir við Fagradal og gengu þau að hrauninu í þrjá tíma. Veðrið var bjart og fallegt, mikill vindur og ískalt. Allir fóru létt með ferðina og nutu þessa fallega útsýnis. Á meðan fóru jarðfræðinemar hring á rútunni, skoðuðu jarðfræðisýningu í Duus-safnahúsinu, brú milli heimsálfa, Gunnuhver og Brimketil. Að lokum sameinuðumst við aftur í rútuna og héldum heim á leið, sæl og sátt með daginn.
Heiða Gehringer og Hallbera Gunnarsdóttir