forvarnardagurinnNokkur undanfarin ár hafa grunnskólar landsins helgað 5. október forvörnum af ýmsum toga. Það var Forseti Íslands ásamt íslenskum sveitarfélögum sem kom  þessu verkefni af stað og víst er að vel hefur tekist til og dagurinn fest sig í sessi.

Nú eru framhaldsskólar landsins með í verkefninu í fyrsta sinn og er það vel. Við hér í ML ætlum að taka hluta næsta miðvikudags undir þennan málaflokk og verða 2 síðustu kennslustundirnar fyrir hádegi þann dag notaðar í fræðsluerindi sem tengjast þessu málefni.

 Gylfi Haraldsson heilsugæslulæknir í Laugarási mun koma til okkar og ræða við alla nemendur á sal um þau áhrif sem það hefur á líkamannn að neyta kannabisefna. Ekki er víst að allir geri sér fulla grein fyrir hvað það getur haft í för með sér að neyta þeirra  og gott að fá lækni til að svara beint spurningum, sem líklega munu koma upp varðandi það. 

Á eftir honum mun Ingvar Guðmundsson lögreglumaður frá Selfossi ræða við nemendur um hvað það hefur í för með sér gagnvart löggjafanum að vera tekinn með þessi efni á sér eða fyrir neyslu þeirra. Líklega munu margar spurningar vakna eftir það erindi.

 Í framhaldi af forvarnadeginum munum við svo samkvæmt venju fara með 1. bekk í ferð til Reykjavíkur, þar sem höfuðstöðvar SÁÁ í Efstaleitinu verða heimsóttar. Þar munu krakkarnir fá að heyra allt um starfsemi samtakanna og ýmsar sláandi tölulegar staðreyndir varðandi innlagnir hjá þeim. Einnig munum við fá aðila til að ræða um eineltismál almennt, enda er það ljóst að mikilvægi þess að slíkt komi ekki upp verður seint ofmetið. 

Að lokum mun fulltrúi frá tryggingafélögunum koma og ræða við krakkana um það hve akstur á vegum landsins er mikil dauðans alvara. Nú styttist í bílprófið hjá þessum krökkum og afar mikilvægt að þau geri sér grein fyrir hver staða þeirra er valdi þau slysi eða óhappi fyrir ógætilegan akstur.

Í lok þessa dags munu þau fá pitsuveislu og síðan fara í keilu eða bíó áður en haldið er heim á leið.

 Pálmi Hilmarsson
forvarnarfulltrúi.