Skólameistari ML, Halldór Páll Halldórsson, sótti ráðstefnu nýverið sem haldin var í borginni León á Spáni en hún er í um 350 km. fjarlægð norðvestur af höfuðborginni Madrid. Ráðstefnan bar heitið Leading Ahead 2011 og var sú sjötta í röð samsvarandi ráðstefna vegna Comeníusarverkefnis innan ESB.
Árið 2008 tóku þrettán Evrópuþjóðir sig saman um að efla og styrkja skólastjórnendur sem leiðandi afl breytinga og þróunar í menntamálum. Fimmtán aðrar þjóðir bættust fljótlega við sem þáttakendur í verkefninu, m.a. Ísland. Fimm íslendingar sóttu ráðstefnuna í León, stjórnendur í framhaldsskólum. Ráðstefnan var mjög gefandi og fróðleg, sérstaklega hvað varðar sameiginleg mál þjóða í Evrópu í stjórnun og rekstri menntastofnana. Víðast eru verkefnin þau sömu. Öllum þjóðum er ljóst að hnattræn samkeppnishæfni byggist á öflugu menntakerfi, kerfi sem er í eðli sínu kerfi sífelldra breytinga og þróunar. Eins var mikið farið inn á stöðu stjórnandans sem einstaklings, líðan hans, persónulega styrkleika og veikleika, rætt um stjórnandann sem leiðtoga, mannauðsstjórnun o.fl. o.fl.
Skólameistari var hinn ánægðasti og komst að því að spænskir tapas-réttir er hin besta fæða.
Hph