candle-in-the-darkFrostakaflinn er búinn að vera langur, að sumra mati, en nú er lítilsháttar hláka, sem hefur áhyggjur ferðalanga í för með sér. Hér í kringum Laugarvatn er nú sögð vera mikil hálka, en ekki liggur fyrir hvernig ástandið er í raun.

Við erum nú lögð af stað inn í vorönnina og framundan er fimm vikna törn fram að annarleyfi. Á þeim tím fáum við að upplifa hvernig sólin hækkar með hverjum degi sem líður.  

Nemendum hefur fækkað um einn frá haustönn, en við erum orðin vön því hér, að þegar nemendur eru komnir hér inn getur verið erfitt að losna við þá, sem betur fer. Þeir eru þó nokkrir, sem biðu þess að smeygja sér inn um áramótin, í stað þeirra sem ef til vill treystu sér ekki til að ljúka vetrinum, en þeir verða bara að bíða áfram – það er takmarkað rými sem við höfum, hvort sem er á heimavist eða í kennslustofum.

Niðurstaða haustannarprófa liggur fyrir og flestir nemenda hafa náð viðunandi árangri, sem gefur þá færi á að bæta sig, og þó nokkrir hafa unnið fyrir afburða niðurstöðu. Þeir eru einnig til, ekki margir þó, sem eru nú í þeirri aðstöðu að þurfa að taka á öllu sínu, og freista þess þannig, að ljúka skólaárinu með rétti til að halda áfram í næsta bekk næsta haust. Það er nokkuð öruggt að við upphaf annar ætla sér flestir að gera sitt besta, en það tekur á að standa við góðar fyrirætlanir, því oft kostar það talsverða breytingu á því lífsmynstri sem viðkomandi hafa tamið sér. Það er samt vel hægt, á þeim tima sem er framundan, að snúa yfirvofandi tapi í sigur.

Á skrifborðinu hjá undirrituðum er kertið, sem fyrst var kveikt á í byrjun aðventu, að berjast við að drukkna ekki í eigin vaxi. Þrettándinn boðar brotthvarf þessa ljóss af borðinu, en þau eru fleiri, ljósin.

pms