mlkorarSíðasta frétt fjallar um fyrirhugaða tónleika Kórs Menntaskólans að Laugarvatni hins eldri, og einnig kórsins sem stofnaður var s.l. haust, í Háteigskirkju.

Nú eru tónleikarnir afstaðnir og margt er hægt að segja í því sambandi, sem ekki verður gert hér, utan að fullyrða að þarna hafi allir sem að komu notið ágætrar stundar; upplifað bergmál úr fortíðinni, fengið að njóta blómstrandi nútíðarinnar og heyra síðan af vonum og þrám varðandi framhaldið.  

Eldri kórinn hafði burðarhlutverk í tónleikunum, enda þarna um þeirra frumkvæði að ræða. Hilmar Örn Agnarsson stjórnaði honum, sem fyrr. Yngri kórinn, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur, fjölmennur og þegar orðinn ótrúlega vel mannaður og agaður, söng þrjú lög auk þess að syngja, ásamt eldri kórnum, tvö lög eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, tónskáld, og ML-ing: Lindina þar sem sr Sjöfn Þór (ML-ingur) skrifaði textann og Jómfrú Mariae dans við texta sr. Daða Halldórssonar. 

Egill Árni Pálsson, tenór og Kristjana Skúladóttir, bæði uppalinn í eldri kórnum, fluttu hvort sitt lagið og fengu, með réttu, gríðar góð viðbrögð við flutningi sínum.

Tríó Kjartans Valdemarssonar lék með kórum og einsöngvurum.

Andblær ML fór um höfuðborgina á laugardaginn var – ekki aðeins í Háteigskirkju.

Myndir frá tónleikunum eru í myndasafni.  Þá munu hreyfimyndir frá tónleikunum birtast smátt og smátt, hér og þar.

-pms