jardfroghaskolakynnÞriðjudaginn 16. apríl fóru nemendur 4. bekkjar í ferðalag. Þarna var um að ræða samþættingu á árlegri jarðfræðiferð og ferð til háskólakynningar í höfuðborginni. Morguninn var tileinkaður jarðfræðinni og stoppað var m.a. við Seyðishóla, Ölfusá,  Kögunarhól og í Hveragerði þar sem nýju hverirnir frá 2008 voru skoðaðir. Þessu næst var litið inn í Hellisheiðarvirkjun, þar sem RíóTríó-maðurinn Helgi Pé tók á móti hópnum og kynnti virkjunina.

Þá var stefnan sett á HR þar sem hópurinn byrjaði á því að fá sér í svanginn í matsölunni Málinu. Gréta María Bergsdóttir, verkefnastjóri, leiddi svo hópinn um bygginguna til fundar við gestgjafana. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR,  tók á móti hópnum og kynningar tóku við. Þar kynntu kennarar og nemendur úr hverri deild sig og sitt. Heimsóknin í HR reyndist afar áhugaverð og vakti talsverða hrifningu meðal ML-inga.

 

Þá var næstur Háskóli Íslands þar sem Sara Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs,  kynnti skólann og starfsemina. Að því búnu var vettvangsferð um húsnæðið, háskólatorg, Stúdentakjallarann,  Odda, Öskju og fleiri áhugaverða staði. Þessi heimsókn vakti margar spurningar og kveikti án efa áhuga ML-inga á fjölbreyttu námsframboði HÍ.

Hópurinn fór í kvöldmat á Grillhúsinu Sprengisandi og gæddi sér á gómsætum hamborgurum. Þess má geta að einn úr hópnum átti tvítugsafmæli og fékk af því tilefni súkkulaðiköku með rjóma og stjörnuljósi.

Heim var haldið með viðkomu á Þingvöllum þar sem jarðfræðinni voru gerð góð skil.

Hópurinn, 31 nemandi, Minney jarðfræðikennari, Gríma námsráðgjafi og Pálmi bílstjóri, kom heim að Laugarvatni um kl. 20 eftir skemmtilegan og lærdómsríkan dag.

GG

myndir