raftingMánudaginn 22. apríl fóru nemendur í framhaldsáfanga ML í útivist í flúðasiglingar á Hvítá eða „river rafting“ eins og það er oftast kallað. Þetta er síðasta ferðin af þrem í ÚTV 472 en þá mega nemendur velja sér ferð. Veður var frekar kalt þennan dag, rigning með köflum og hitastig rétt yfir frostmarki. Og þar sem Hvítáin er jökulá þá getur orðið ansi kalt að ferðast á henni að ég tali nú ekki um að detta út í . En óhætt er að segja að nemendur hafi leyst þetta verkefni af hendi með miklum sóma.

Lagt var að stað um 12:40 frá Laugarvatni og komið á áfangastað um 40 mín seinna eða að Drumboddsstöðum í Biskupstungum þar sem gert er út á Hvítána í  „rafting“. Það voru 10 nemendur sem fóru í ferðina ásamt undirrituðum og Pálma húsbónda. Þegar búið var að fara yfir allar reglur varðandi búnað var lagt af stað með flottustu rútu á Íslandi og þó víða væri leitað að Hvítánni. Nemendum var skipt í tvo hópa og fóru þeir með sinn bát út á vatnið. Það voru tveir leiðsögumenn með í ferðinni og stjórnuðu þeir för og sitthvorum bátnum. Að sjálfsögðu var farið yfir róðrartækni og hvernig skildi bregðast við félli einhver útbyrðis, áður en lagt var í hann.

 

Ferðin sjálf gekk mjög vel þó kalt væri í veðri en hún tók um eina og hálfa klukku stund. Þar sem frekar lítið var í ánni þá fékk hópurinn ekki að stökkva í ána á þar til gerðum stað (4 m hátt fall). Siglingin endaði svo rétt fyrir neðan Drumboddsstaði og eftir að hafa gengið frá bátum, árum og klæðnaði var endað á að fara í sturtu og gufubað sem var mjög ljúft. Ferðin heim á Laugarvatn tók um hálftíma og voru það kaldir en ánægðir nemendur sem komu á heimavistir ML um kl. 17:15. Að lokum viljum við Pálmi þakka kærlega fyrir okkur.

Með kv. Ólafur Guðm. og Pálmi Hilmars.

MYNDIR