Skriðið niður í Litla-BjörnFöstudaginn 1. nóvember sl. fóru nemendur í Útivist 372, framhaldsáfanga, í Hellaskoðunarferð. Viðfangsefnið var hellirinn Litli-Björn sem er á Lyngdalsheiðinni, ekki langt frá Laugarvatni. Það voru 21 nemandi ásamt þeim Óla Guðm. kennara og Pálma Hilmars. húsbónda sem lögðu í hann um 12:50 frá bílaplani ML á 5 einkabílum. Aksturinn að áfangastað var um 15 km. og síðan þurfti að ganga um km. að hellisopi Litla-Bjarnar. Nemendur voru allir vopnaðir hjálmum og höfuðljósum sem skólinn er nýbúinn að fjárfesta í. Svona búnaður er nauðsynlegur í hellaferð, bæði til að sjá fegurðina sem oft er í svona hraunhellum sem og til að verja höfuð nemenda, því stundum er auðvelt að reka höfuðið uppundir hraunþakið.

 Litli-Björn er um 450m. langur og er hann frekar einfaldur yfirferðar þó svo að sumsstaðar sé lágt til lofts og af og til hrunið úr því. Útivistarhópurinn var röskur að ganga hellinn á enda, en nokkrum sinnum á leiðinni var stoppað til að hvíla sig og líka til að prófa að slökkva ljósin og athuga hvað það verður dimmt í hellum, en það er nánast vonlaust að venjast myrkrinu sökum þess hve kolniðamyrkvað er.  Þegar inn í botninn á Litla-Birni var komið, gátu nemendur valið um að snúa við og ganga sömu leið til baka eða halda áfram yfir í Vörðuhelli sem er framhald af Litla-Birni. Þá þurfti að fara í gegnum þröng göng og ganga svo um það bil 200m. að opinu. Hópurinn skiptist nokkurn veginn í tvennt. Sumir héldu áfram en hinir fóru til baka. Síðan lá leiðin að fararskjótunum sem biðu eftir okkur á gamla Lyngdalsheiðarveginum skammt frá. Voru allir komnir heim á Laugarvatn um 15:00 eftir vel heppnaða hellaskoðunarferð.

Með kv. Óli Guðm. og Pálmi Hilmars.

MYNDIR