horft í djúpiðLaugardaginn 26. apríl fór framhaldshópur útivistar ML í sína árlegu klifurferð. Leiðin lá á Sólheimajökul, annað árið í röð, sem er hluti af Mýrdalsjökli. Hópurinn sem taldi 21 nemenda ásamt þremur kennurum og Pálma bílstjóra, lagði af stað frá Laugarvatni kl. 08.00 að morgni. Ferðin austur tók um tvær klukkustundir. Um kl. 11:30 voru allir klárir í að ganga á jökulinn og finna svæði til að klifra á. Það voru tveir sérfræðingar með í ferðinni, Ágúst Kristján Steinarrsson klifursérfræðingur og Örn Árnason jöklaleiðsögumaður. Ágúst fór yfir og rifjaði upp helstu grunnatriði ísklifurs áður en lagt var í hann og Örn fór svo yfir öryggisatriði varðandi það að ganga á jöklum en það getur verið mjög varasamt og er því nauðsynlegt að vera með einstakling sem þekkir jökulinn eins og fingurna á sér.

Skipulagið var þannig að hópnum var skipt í tvennt. Hópur A byrjaði á að klifra í ísnum á  meðan hópur B fór í skoðunarferð um jökulinn. Að klukkustund liðinni skiptu hóparnir um hlutverk.  Það tók hópinn um 20 mín. að finna góðan stað til að klifra í. Settar voru upp tvær festingar fyrir jafnmargar línur og gátu því tveir  klifrað í einu og tveir þar af leiðandi tryggt niðri. Það er mjög mikilvægt að kunna til verka við að tryggja eins og það heitir en þá er tryggjandinn, sem er  á jörðu niðri, með línuna bundna í sig og er alltaf með hana strekkta og tilbúinn að halda klifrara uppi ef hann missir fót- og/eða handfestu.

Með því að skipta nemendum í tvo hópa var virkni nemenda mjög mikil og góð og þeir fengu mikla æfingu í ísklifri ásamt fræðslu um jökulinn. Þegar hópurinn hafði klifrað og gengið í um þrjár klukkustundir var haldið heim á leið. Komið var á Laugarvatn um 18:30.  

Ferðin þótti takast einstaklega vel en blíðskaparveður var þennan laugardag, léttskýjað, hlýtt og logn sem gaf hópnum einstakar aðstæður til athafna. Hvað er hægt að biðja um það betra.

Með kv. Ólafur Guðmundsson fagstjóri í íþróttum og útivist.

MYNDIR