Nemendur í útivist 272 kláruðu verklega hluta námskeiðsins helgina 25. – 27. apríl þegar þeir sigldu á kanó og kayak frá Laugarvatni um Hólaá og yfir í Apavatn í þremur hópum. Fyrsti hópurinn lagði af stað undir handleiðslu Helgu og Óla útivistarkennara ásamt Pálma húsverði á föstudag í blíðskaparveðri. Pálmi hélt stuttan fyrirlestur um öryggi og framkomu áður en lagt var af stað, en nemendur höfðu fengið fyrirlestur og leiðbeiningar í kennslustund deginum áður. Róið var meðfram bökkum Laugarvatns að bragga í landi Úteyjar þar sem áð var og fengu nemendur sér nesti. Þaðan var svo róið í Hólaá en undir Laugardalshólum var aftur áð, nemendur kláruðu nestið og söfnuðu orku fyrir síðasta hluta ferðarinnar. Veðrið lék við okkur mest alla leiðina en í lok ferðar fengum við úrhelli og urðu nemendur og kennarar þó nokkuð blautir. Ferðin gekk að öðru leyti vel og komust allir óhultir í land við bakka Apavatns. Þar sótti Bjarni Daníelsson skólabílstjóri og björgunarsveitarmaður nemendur ásamt bátum og keyrði heim.
Á sunnudag fóru tveir hópar eftir sömu áætlun. Veðrið var gott en þó nokkuð mikill vindur. Nokkuð þungur róður var í fyrsta áfanga ferðarinnar en nemendur stóðu sig afar vel og tóku ölduganginn á hörkunni einni saman. Allir voru jákvæðir og létu ekki rok og þunga strauma stoppa sig. Bjarni Daníelsson var aftur í hlutverki bílstjóra en í seinni ferð tók hann við hlutverki leiðbeinenda og réri með nemendum þar sem Helga átti við gömul axlarmeiðsli að stríða. Helga fylgdi þó nemendum af stað, tók á móti þeim við áninguna í Hólaá og í lokin við Apavatn. Þrátt fyrir öldugang og þunga strauma komust hóparnir heilir í land án þess að velta og voru jafnvel einhverjir nemendur svolítið sólbrunnir á nefinu eftir daginn.
Allir hóparnir stóðu sig með sóma og sýndu umhverfi sínu, kennrurum og öðrum nemendum mikla tillitssemi. Fuglalífið við vatnið og í Hólaá er fjölbreytt og mátti sjá bæði straumendur og álftir spóka sig við vatnið og í ánni. Það var því nóg að skoða og njóta í ferðunum sem tóku um 3 tíma í það heila. Hóparnir voru góðir, allir jákvæðir og flestir nokkuð ánægðir með ferðirnar sem gerðu þær ánægjulegri fyrir vikið.
Með kveðju, Helga Kristín Sæbjörnsdóttir kennari útivistar 272.