ruslflokkun í FlensborgFöstudaginn 30. janúar fóru fimm fulltrúar í stýrihópi HEF (Heilsueflandi Framhaldsskóli) í heimsókn í Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Þrír kennarar, Helga Kristín Sæbjörnsdóttir formaður stýrihópsins, Gríma Guðmundsdóttir námsráðgjafi og Freyja Rós Haraldsdóttir kennari fóru ásamt Brynju Hrönn Rögnvaldsdóttur og Sólveigu Örnu Einarsdóttur, nýkjörnum skólaráðsfulltrúum og kynntu sér aðstæður og stefnu skólans í HEF verkefninu.

Flensborgarskólinn er sá fyrsti sem tók upp heilsueflandi stefnu og hefur í nokkur ár unnið hörðum höndum að því að efla heilsulæsi nemenda. Bryndís Jóna Jónsdóttir mannauðsstjóri hefur haldið utan um verkefnið og stýrt því í þann góða farveg sem liggur stöðugt upp á við með reglulegum nýjungum og uppákomum. Þá vinnur stýrihópur HEF í Flensborg mjög náið með nemendaráði skólans og fá nemendur einingar fyrir þá vinnu sem liggur að vikulegum fundum og verkefnavinnu. Bryndís hefur einnig innleitt núvitund (mindfulness) í skólann. Meirihluti starfsmanna hefur sótt námskeið í núvitund og hafa þeir aðgang að hugleiðsluherbergi sem þeir nýta beint til hugleiðslu eða jafnvel til hvíldar ef svo ber undir.

Það má með sanni segja að margar nýjar og spennandi hugmyndir hafi fæðst í framhaldi af heimsókninni og margt framundan hér hjá okkur í Menntaskólanum að Laugarvatni í HEF verkefninu. Það er nokkuð ljóst að breytinga má vænta næstu mánuði en markmiðið er að auka við þekkingu og núvitund starfsmanna og nemenda í heilsueflandi umhverfi.

HKS

fleiri myndir frá heimsókninni