Eitt af því sem við eigum víst öll sameiginlegt, í mismiklum mæli þó, er að hafa áhyggjur af því hvernig við lítum út gagnvart samferðamönnum okkar. Þarna getur verið um að ræða að okkur skortir sjálfstraust eða að eitthvað skortir upp á að sjálfsmyndin sé í fullkomnu lagi.
Unglingar eiga oft í mikilli baráttu með sjálfsmynd sína og sjálfstraust þar sem þeir eru að máta sig við umhverfi sitt, leita að styrkleikum sínum til að efla þá og átta sig á veikleikum sínum og takast á við að styrkja þá.
Það var afar vel til fundið hjá stjórn foreldrafélags skólans, FOMEL, að standa fyrir námskeiði fyrir alla nemendur skólans í síðustu viku, þar sem einmitt var verið að fjalla um þessa þætti. Til verksins fékk stjórnin þau Jón Halldórsson og Önnu Steinsen frá Dale Carnegie.
Námskeiðið féll í góðan jarðveg og varð örugglega til þess að einhverjir þátttakendanna áttuðu sig á ýmsu í eigin fari sem er hreint ekki erfitt að takast á við að bæta.
Að sögn Guðna Árnasonar, formanns FOMEL, styrkti verslunin Samkaup hf. félagið um kr. 100.000 vegna námskeiðsins. Það var Hallgrímur Ástráðsson, verslunarstjóri Samkaupa á Laugarvatni sem afhenti styrkinn. Guðni vill koma á framfæri þakklæti stjórnar fyrir stuðninginn.
„Við lítum á þetta sem uppbyggilegt fyrir unga fólkið sem er að fóta sig í lífinu og hjálpar þeim að standa á eigin fótum. Jafnframt lítum við á þetta sem forvarnarstarf“ segir Guðni.
pms