NýnemavikaNú, þegar önnur vika haustannar er hafin eftir allt það líf og fjör sem einkenndi fyrstu dagana, er rétt að staldra við og leita eftir mikilvægu jafnvæginu milli leiks og starfs. Takist að finna það, mun allt fara vel.

Að sumu leyti förum við eftir troðinni slóð inn í þetta skólaár; skólinn er gróin stofnun með sögu og hefðir að baki, svo ekki sé nú minnst á nokkra starfsmenn sem hafa alið stærstan hluta starfsaldurs síns innan þeirra veggja sem skólinn er í. Nemendur í 2., 3., og 4. bekk ljúka námi sínu við skólann með sama hætti og lagt var upp með þegar þeir komu í skólann, með lítilsháttar breytingum sem óhjákæmilega fylgja nýrri námskrá og öðrum utanaðkomandi áhrifum.  

Að sumu leyti förum við ótroðna slóð og treystum því að útbúnaður okkar dugi til að sú ferð verði áfallalaus og góð fyrir skólann og nemendur hans. Nýnemar koma inn í nýtt kerfi, nýja námskrá, sem gerir ráð fyrir því að stúdentsprófi verði lokið á 3 árum. Við þetta lengist skólaárið lítillega, prófatími hverfur sem slíkur,  og skilgreining námsáfanga tekur mið af vinnu nemenda fremur en starfi kennara, svo eitthvað sé nefnt.

Við sjáum á bak nokkrum góðum samstarfsmönnum og fögnum nýjum og væntum þess að samstarfið verði bara hreint ágætt.  

—–

Það voru teknar myndir í nýnemavikunni og í kringum skírnina s.l. föstudag.  Það er ekki fréttnæmt að það skuli hafa verið teknar myndir.  Brot þeirra birtist nú á myndasíðu.  

Myndina hér tók Rúnar Gunnarsson úr drónanum sínum, en honum flaug hann allt um kring þegar gleðin stóð sem hæst (myndin er stærri á myndasíðunni) .  Hér eru myndir sem Kjartan Helgason,  í 4. bekk tók í vikunni (þar má finna mynd Rúnars) og hér eru myndir sem undirritaður tók í kringum skírnina.

pms