Óskar Ólafsson og nokkrir nemendurMiðvikudaginn 18. nóvember, fór 2. bekkur í vettvangsferð um sögusvið Njálu en sagan er lesin í áfanganum ÍSL 303. Leiðsögumaðurinn var ekki af verri endanum, enda góðvinur ML og fyrrverandi kennari og aðstoðarskólameistari við skólann, Óskar Ólafsson.

Óskar var duglegur að spyrja nemendur út úr sögunni og var ánægður með undirtektir, hann rakti helstu ættir í Njálu og inn í frásögn um Njálu fléttaði hann ýmsum fróðleik úr landafræði og sögu.

Fyrst lá leið okkar að Gunnarssteini þar sem þeir bræður Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur börðust við 30 menn og höfðu sigur. Því næst var heimsókn í Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem nemendur fengu nokkuð áhugaverðan fyrirlestur um nýjar söguskýringar úr Njálu. Að lokinni skoðunarferð um Sögusetrið var farið í pizzahlaðborð í Gallerý pizza á Hvolsvelli áður en ferðinni var áframhaldið inn Fljótshlíðina.

Komið var að Hlíðarenda, horft yfir sveitina og spáð og spökulerað í söguna og sögusviðið.

Meðan ekið var úr Fljótshlíðinni niður að Stóra Dímon flutti Óskar Gunnarshólma fyrir nemendur, blaðalaust og án þess að hika, og það hefði mátt heyra saumnál detta (ef ekki hefði verið fyrir skröltið í rútunni) svo uppnumdir voru nemendur yfir flutningnum.

 Við kíktum síðan við á Bergþórshvoli áður en haldið var heim á leið.

Pálmi Hilmarsson sat undir stýri að vanda og sá til þess að allt gengi eins og í sögu. Erla Þorsteinsdóttir slóst í för með okkur og var sérlegur myndasmiður ferðarinnar. Nemendur voru til fyrirmyndar í alla staði og sameinuðust um að gera ferðina vel heppnaða.  Ég vil þakka nemendum 2. bekkjar, Pálma, Erlu og Óskari fyrir ánægjulega ferð.

Ingibjörg Bjarney Baldursdóttir

MYNDIR ÚR FERÐINNI