Síðastliðinn mánudag var námsferð eðlisfræðinema í virkjanir handan Lyngdalsheiðar. Fyrsta stopp var orkusýningin í Ljósafossstöð, þar sem Landsvirkjun er með gagnvirka sýningu. Voru nemendur bæði áhugasamir og duglegir að prófa það sem í boði var. Á sýningunni er sýnt á mjög greinilegan hátt hvernig vatns-, gufu- og vindafl er nýtt til orkuframleiðslu. Einnig eru hagnýtingu rafmagns og tæknisögunni gerð góð skil, jafnt í íslensku sem alþjóðlegu samhengi.
Að þessari sýningu lokinni var ferðinni heitið í Írafossvirkjun. Þar tók á móti okkur Jóhann stöðvarstjóri og leiddi okkur niður 195 tröppur á rafalgólfið og að lokum í hellishvelfinguna, hvar fallvatn Sogsins streymir fram, eftir að hafa knúið vatnshverfla virkjunarinnar.
Eftir að upp var komið á ný, fengu nokkrir nemendur að reyna sig við akstur rafmagnsbíls og svo lá leiðin í Steingrímsstöð. Þar tók á ný við tröppugangur hvar gengið var upp að sveifluþrónni, þangað sem vatn er leitt í jarðgöngum undir Dráttarhlíðina frá Þingvallavatni áður en fallþunginn er nýttur til rafmagnsframleiðslu. Að lokum var gengið út á þak virkjunarinnar og horft yfir Úlfljótsvatn á fallegum vetrardegi.
Nemendur munu svo vinna áfram með endurnýjanlega orkugjafa og vinna verkefni sem miða að bæði sjálfbærni og orkunýtingu í nágrenni skólans.
JS/LBÓ