Um síðustu helgi sýndu nemendur hið farsakennda verk 39½ vika eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Verkið fjallar um miklar flækjur sem tengjast barneignum í fortíð, nútíð og framtíð, auk þess sem sauðfjárrækt kemur við sögu og skýrir eða flækir málin.
Hér var á ferðinni hin skemmtilegasta sýning og það sem kannski gerði hana enn sthyglisverðari en ella var, að nemendur unnu hana og settu upp sjálfir. Það var Inger Erla Thomsen, árshátíðarformaður og stallari sem leikstýrði.
Að þessu sinni var um að ræða það sem hjá okkur kallast „lítið“ leikrit, en annað hvert ár hafa nemendur sett upp stærri verk og fengið utanaðkomandi leikstjóra.
Það kom upp í hugann við þessa sýningu, að í nemendahópnum búa heilmiklir hæfileikar og frumkvæði sem væri gaman að virkja enn frekar. Það mætti sjá fyrir sér, að á árshátíð sýni nemendur frumsamda, heimagerða einþáttunga, sem þeir setja sjálfir upp, en auðvitað er þeirra að finna flöt á slíku.
Þakkir fyrir góða skemmtun.
pms