Þátttakendur í forvarnaferðinni

Framhaldsskólar landsins hafa í nokkuð mörg ár verið í talsverðri sókn í þeirri baráttu að fá nemendur sína til að seinka eða helst byrja aldrei á neyslu vímuefna af hvaða tagi sem er. Þar að auki hafa skólarnir reynt að stuðla að bættri lýðheilsu og um leið virkja krakkana í betri umgengni við náungann. Í því felst að sýna hvert öðru umburðarlyndi, þolinmæði og leyfa hvert öðru að þroskast á sínum forsendum, vera maður sjálfur innan hópsins og vera meðtekinn þannig án þess að verða á einhvern hátt látinn gjalda sérkenna af hvaða tagi sem er.

 Það eru að verða 15 ár síðan ML tók upp á því að fara með allan fyrsta bekk í forvarnarferð að hausti, fljótlega eftir skólabyrjun. Fyrstu ferðirnar voru farnar inn í Hólaskóg sem er gangnamannaskáli inn á afrétti Skeiðamanna og Gnúpverja. Þangað fengum við fyrirlesara og skemmtikrafta til að sjá um kvöldvöku, grilluðum og gistum.  Þær ferðir breyttust svo yfir í að verða dagsferð til Reykjavíkur og hefur sú dagskrá haldist nokkuð óbreytt. Þá höfum við farið í höfuðstöðvar SÁÁ í Efstaleiti og fengið þar aðstöðu í afar góðum sal.  Þangað hafa síðan komið fyrirlesarar og rætt við okkur um hin ýmsu málefni, misjafnt milli ára.  Að þessu sinni var ferðin farin síðastliðinn þriðjudag, þann 20 sept. Við lentum í Efstaleitinu á flottri rútu frá Guðmundi Tyrfingssyni kl. 14.00 og þar tók á móti okkur Karl S. Gunnarsson dagskrárstjóri á Von. Hann flutti ágætt erindi um samtökin, sláandi tölur um innlagnir og hve mikil og ógnvænleg breytingin hefur orðið á nokkrum árum á því hvers vegna fólk leggst inn. Fyrir nokkrum árum voru langflestir sem komu inn að berjast við Bakkus en í seinni tíð hefur hann látið í minni pokann fyrir  Kannabisdraugnum sem dregur æ fleiri niður í svaðið með sér, ef svo má segja.

Eftir að hafa fengið safa og kex sem við tókum með okkur frá Svenna bryta í ML þá tók við annar fyrirlestur. Nú var það Matti Ósvald næringar- og heilsuráðgjafi sem ræddi við krkkana næsta klukkutímann um heilsusamlegt líferni, jákvætt hugarfar og ýmsa hluti sem gott er að hafa í huga til að auðvelda lífið og takast á við dagsins önn má segja.

Aftur fengu krakkarnir smá pásu en að henni lokinni kom maður að nafni Óli Örn Atlason uppeldis- og menntunarfræðingur. Hann hefur séð um félagsmiðstöð í Reykjavík árum saman og er greinilega í góðum tengslum við unglinga. Að minnsta kosti hélt hann fullri athygli og var þó nokkuð hlegið, en líka komu góðar spurningar frá nemendum til hans. Innihald fyrirlestrar hans var að fá þau til að hugsa aðeins áður en þau settu frá sér eitthvað á netið, hvort sem það væru samfélagsmiðlar eins og Facebook, Instagram, Twitter eða eitthvað sambærilegt. Það sem þú setur á netið er komið til að vera þar og nánast ógerlegt að afmá þaðan, þó upp komi einhver eftirsjá. Því má varast að setja inn myndir af fólki eða skrifa um það á niðrandi eða ærumeiðandi hátt.

Þá var komið að kveðjustund í SÁÁ og við færðum okkur aðeins um set og litum inn í Fjallakofann, útisvistarbúð í Húsi verslunarinnar. Stór hluti fyrsta bekkjar tók útivist sem val og þarna gafst tækifæri til að skoða úrvalið í einni af bestu búðum landsins í þessum geira. Þaðan fórum við svo í Keiluhöllina en þar áttum við bókaðar 11 brautir í um klukkustund. Ferð þessi er ekki síst hugsuð sem hópefli og til að hræra bekknum betur saman og því var búið að raða þeim niður á brautir, t.d. þannig að í hópunum var blanda af báðum kynjum.

Við fengum svo pitsur á brautirnar, eins og okkur lysti nánast, allir mettir og sáttir þegar lagt var í hann heim á Laugarvatn eftir vel heppnaða og góða ferð. Komum að skólanum um kl. 20.30 og eiga nemendur hrós skilið fyrir prúðmannlega framkomu í hvívetna, forréttindi fyrir okkur sem með þeim voru að fara með hóp sem slíkan í ferðir, takk fyrir okkur.

Kærar þakkir SÁÁ, Matti Oswald, Óli Örn Atlason fyrir erindin og aðstöðuna.

Pálmi Hilmarsson, forvarnarfulltrúi.
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir. útivistar-, íþrótta- og lífsleiknikennari.

M Y N D I R