kynjafraedimalthing

Síðastliðinn fimmtudag, þann 30. mars fór 4F á málþing í Borgarholtsskóla sem haldið var fyrir nemendur í kynjafræði við framhaldsskóla landsins. Í þetta sinn voru það Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, Fjölbrautaskólinn viði Ármúla, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskóli Borgarfjarðar og Menntaskólinn að Laugavatni sem tóku þátt og voru rúmlega 100 nemendur úr skólunum skráðir.

Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir hélt opnunarerindið sem bar yfirskriftina „Femínismi: hvað þú gerir – ekki hvað þú segist vera.“ Nemendur gátu svo valið um málstofur í tveimur hollum þar sem fjallað var um hinsegin málefni, kynlífsmenningu ungra karla, Stígamót, píkuna, stöðu kvenna í Mið-Austurlöndum og kynjamisrétti í tónlistarheiminum. Úrval góðra kynninga sem skildu mikið eftir sig.

Inger Erla Thomsen fyrrverandi stallari Mímis var ein af sex nemendum í pallborði í lok málþingsins. Þar var samhljómur um að kynjafræði ætti að vera skylduáfangi og víðar en bara á framhaldsskólastiginu.

Ánægjulegur dagur þar sem nemendur voru ML til sóma, eins og fyrri daginn. 

Freyja Rós Haraldsdóttir