IMG 1335aÞað hefur verið fastur liður síðustu misseri að stjórnmálafræðinemendur fari í vettvangsferð. 2F leggur nú stund á fagið og miðvikudaginn 5. apríl var lagt af stað til Reykjavíkur.

Fyrsti viðkomustaður var Alþingi. Þar tók Laufey Einarsdóttir, starfsmaður þingsins, á móti hópnum. Hún leiddi nemendur um húsið og sagði skemmtilega frá sögu hússins og lýðveldisins. Þingsalur var skoðaður ofan af pöllunum og Laufey var með góða fræðslu um feril þingmála, hlutverk ólíkra aðila, sætaskipan og fyrirkomulag á atkvæðagreiðslum.

Þegar skoðunarferðinni lauk var fundur í Alþingishúsinu, með fulltrúum stjórnmálaflokka. Þar mættu Eygló Harðardóttir (þingmaður Framsóknarmanna), Sandra Rán Ásgrímsdóttir (formaður Sambands ungra Framsóknarmanna), , Svandís Svavarsdóttir (þingmaður Vinstri grænna), Vilhjálmur Árnason (þingmaður Sjálfstæðismanna) og Páll Rafnar Jónsson (aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Viðreisn). Öll sögðu þau stuttlega frá sínum flokki og veittu innsýn í starf stjórnmálafólks. Nemendur voru órög við að spyrja og góðar umræður sköpuðust. Meðal þess sem barst í tal var mikilvægi þess að ungt fólk láti sig stjórnmál varða og hvaða leiðir eru færar til þess að taka þátt.

Eftir hádegi lá leiðin í Ráðhúsið. Þar gafst tækifæri til að velta fyrir sér muninum á sveitarstjórnarstiginu og landspólitíkinni. Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, Jónas Már Torfason (ungir jafnaðarmenn) og Magnús Már Guðmundsson (borgarfulltrúi) komu frá Samfylkingunni og    sögðu skýrt frá sínum störfum og áherslumálum. Þetta var einstaklega fróðlegt, og gaman að fá að sitja í þessum flotta sal í Ráðhúsinu, þar sem borgarstjórnarfundir fara fram.

Það toppaði svo daginn að við fengum frábærar móttökur á Bessastöðum. Guðni Th. Jóhannesson var ófeiminn við að svara forvitnum ungmennum með fjölbreyttar spurningar. Hann sagði frá hlutverki forseta og ræddi m.a. synjunarvald forsetans. Einnig deildi hann sinni persónulegu upplifun af því að vera í þessu embætti, sem býður óneitanlega upp á annan lífsstíl og ólíkar áskoranir heldur en prófessorsstarfið sem hann sinnti áður. Þórarinn Guðni Helgason færði Guðna sérsmíðaða klukku, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Bókina um sögu Menntaskólans að Laugarvatni fékk forsetinn einnig að gjöf, þegar við kvöddum.

Það er afskaplega verðmætt fyrir okkur að komast í svona beina snertingu við staðina og fólkið. Líta upp úr hugtökum og kenningum, og tengja við samfélagið okkar. Kærar þakkir til allra sem tóku þátt, þar á meðal bílstjórans Pálma Hilmarssonar, sem á ómetanlegan þátt í að svona ferðir séu partur af skólastarfinu í Menntaskólanum að Laugarvatni. 

FRH

MYNDIR