Þriðjudaginn 18. apríl fór þriðji bekkur náttúrufræðibrautar í námsferð á Reykjanesið.
Fyrsti viðkomustaður var menntafyrirtækið Keilir á Ásbrú. Þar tók á móti okkur forstöðumaður tæknifræðinámsins og var eftir stutta kynningu gengið um húsnæði skólans.
Vakti þar sérstaka athygli góð rannsóknaraðstaða og vinnurými nemenda.
Næsti áætlaði viðkomustaður var verksmiða United Silicone í Helguvík. Þeirri heimsókn var frestað sökum brunans er hafði átt sér stað nokkrum klukkustundum fyrr.
Meiri tími gafst þá til að upplifa einstakar jarðmyndanir Reykjanes. Gengið var yfir brúna milli heimsálfa og að Gunnuhver áður en komið var að næsta viðkomustað.
Í Reykjanesvirkjun var gengið um gagnvirku sýninguna, Orkuverið Jörð, hvar inntak sýningarinnar er „orka er líf“. Fjallað er um miklahvell, sólkerfi okkar, mismunandi orkugjafa og að lokum sérstöðu Íslands í hagnýtingu jarðhitans. Í sýningarsalnum sést einnig vel yfir tvo 50 MW gufuhverfla virkjunarinnar.
Að lokum var svo gengið upp að Reykjanesvita áður en ekið var heim á leið eftir Suðurstrandarvegi.
Jón Snæbjörnsson