visindaferd MediumUm 50 nemendur á öðru og þriðja ári náttúruvísindabrautar í ML fóru í dagsferð þann 27. september ásamt þremur kennurum og húsbónda er ók langferðabílnum.

Fyrst lá leiðin í Steingrímsstöð þar sem virkjunin var skoðuð allt frá inntaki við Þingvallavatn til frárennslis í Úlfljótsvatn. Þaðan lá leiðin í Kolsýruvinnsluna á Hæðarenda þar sem við fengum góða kynningu á því hvernig kolsýra uppgötvaðist þar við borun eftir heitu vatni. Nú er þar unnin um 2/3 af allri kolsýru sem nýtt er á Íslandi.

Pitsuhlaðborð í Þrastarlundi vakti ánægju allra í hópnum og þaðan lá leiðin í Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi. Þar kynntumst við framleiðslu og vinnslu ýmissa mjólkurvara og nemendur í lífrænni efnafræði fengu að ganga um rannsóknastofuna. Næsti áfangastaðir var Flúðir og Baldur jarðfræðikennari miðlaði fróðleik um þau náttúrufyrirbæri sem fyrir augu bar á leiðinni. Á Flúðum var stutt kynning á svepparæktun fyrir hópinn og við gæddum okkur á kaffi og kökusneið á nýju kaffihúsi Flúðasveppa – Farmers Bistro áður en haldið var í einingaverksmiðjuna Vírnet-Límtré þar sem vinnsla á tilbúnum einangrunarklæðningum og límtrésbitum var kynnt.

Þreyttir en sáttir nemendur og kennarar komu til baka í ML um kl. 17, hvar stór hluti nemenda mætti beint á kóræfingu.

Fleiri myndir má sjá hér.

Takk fyrir okkur

Baldur, Jón og Lóa stærðfræði og raunvísindakennarar ML