ParísarferðMánudaginn 18. september héldu þýsku- og frönskunemar á fjórða ári í fimm daga ferðalag með kennurum sínum. Þýskunemar héldu til Berlínar ásamt Áslaugu Harðardóttur og frönskunemar fóru til Parísar með Grímu Guðmundsdóttur. Hér á eftir fylgja stuttar ferðasögur frá þessum utanlandsferðum.

 

 

Haust í Berlín

Berlín tók á móti okkur með mildu haustveðri. Eftir að hópurinn var búinn að koma sér fyrir á farfuglaheimilinu var farið út að borða í Kreuzberg hverfinu. Síðan var haldið upp á Alexanderplatz og gengið þaðan niður breiðgötuna Unter den Linden og endað við Brandenborgarhliðið. Það er mjög fallegt að virða fyrir sér ýmsar byggingar á þessari leið í kvöldljósunum. 

Þriðjudaginn 19. september fengum við leiðsögn frá www.berlinur.de um svæði sem áður var á mörkum Austur- og Vestur-Berlínar. Þar má enn sjá hluta af Berlínarmúrnum. Þetta var mjög fræðandi ganga með Hinriki Þór Svavarssyni, sem gaf okkur meðal annars að smakka austur-þýskt gervikaffi og súkkulaði. Eftir gönguna völdu sumir úr hópnum að fara upp í sjónvarpsturninn (Fernsehturm) við Alexanderplatz, sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Aðrir skoðuðu sig um þar í nágrenninu.

Á miðvikudeginum var farið í safnið Story of Berlin og í framhaldinu fengum við skoðunarferð um neðanjarðarbyrgi úr kalda stríðinu. Síðan skoðuðum við die Gedächtniskriche, en sú kirkja fór mjög illa í seinni heimstyrjöldinni og bara hluti hennar stendur enn. Því næst var haldið í dýragarðinn (Berlin Zoo). Þar er að finna fjöldann allan af dýrategundum, stórum og smáum, í fallegu umhverfi. Eftir þessa dagskrá var frjáls tími sem margir nýttu á einni stærstu verslunargötu Berlínar, Kurfürstendamm.

Fimmtudagurinn var helgaður þinghúsinu (Bundestag) og svæðinu þar í kring. Við fórum upp á þinghúsið og skoðuðum glekúpulinn sem þar er og útsýni yfir alla borgina. Því næst gengum við með ánni Spree að aðaljárnbrautarlestarstöðinni og fengum okkur að borða þar. Síðan gengum við um stóran garð (Tiergarten) sem er á þessu svæði, skoðuðum áhrifamikið minnismerki um helförina og enduðum svo á Potsdamer Platz. Þar er mikið af verslunarbyggingum og ýmsum háhýsum á svæði sem áður tilheyrði múrnum. Síðasta kvöldið áttum við svo notalega stund á veitingastað í miðborginni.

Á föstudagsmorgni var lagt að stað heim á leið. Heimferðin gekk vel og það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem komu á Laugarvatn um kaffileytið.

Eftir ferðina unnu nemendur ýmis verkefni í tengslum ferðina sem þeir kynntu svo fyrir öðrum ML-ingum. 

Takk kærlega fyrir góða ferð og myndir úr ferðinni má sjá hér

 Áslaug Harðardóttir, þýskukennari.

 

Haust í París 

Heimsborgin tók á móti Parísarhópnum með fallegu haustveðri og var tíminn vel nýttur til að skoða öll helstu kennileiti borgarinnar.   

Hópurinn dvaldi á sjamerandi og mjög gömlu hóteli í Latínuhverfinu, Hôtel Stella, ekta frönsk stemning þar. Sorbonne háskóli, Notre-Dame dómkirkjan og áin Signa  í næsta nágrenni. Að þessu sinni fór hópurinn í fróðlega og nokkuð  ógnvekjandi skoðunarferð um Katakomburnar, gamlar kalknámur sem urðu síðan nýttar undir bein úr gömlum kirkjugörðum. Þær eru 20 metrum undir yfirborði borgarinnar og ekki fyrir fólk með inniloknuarkennd. Við skoðuðum Eiffel-turninn, Sigurbogann,  Breiðgötuna Champs-Élysées, Louvre-safnið, Place de Vosges, Mýrina ( Le Marais),  umhverfi Pompidou safnsins, Rauðu Mylluna, Ástarvegginn,  Montmartre hverfið og Sacré-Cœur, nágrannafrúna Notre-Dame og farið var í kvöldsiglingu á Signu. Einn af  hápunktum ferðarinnar var heimsókn í Versali, eina glæsilegustu höll Evrópu með sínum fallegu hallargörðum. Þar fórum við í „franska“ lautarferð og skoðuðum yndislega sveitaþorpið hennar Marie Antoinette.  

Einhverjir nýttu líka tímann til að kíkja í búðir þá og við skoðuðum m.a. glæsilegu vöruhúsin Galeries Lafayettes en það voru líka ófáar ferðirnar sem hópurinn fór í Monoprix (nokkurs konar Hagkaup) til að kaupa sér eitthvað gott í svanginn. Kaffihúsin og veitingastaðirnir fengu sinn skerf, kaffi og croissant í morgunverð, sniglar, lauksúpa og froskalappir í kvöldverð Neðanjarðarlestirnar (métro) voru óspart nýttar og eru þægilegur ferðamáti til að komast hratt og örugglega á milli staða.  

Nemendur æfðu sig í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Við heimkomuna unnu nemendur ýmis verkefni, klipptu saman myndbönd, útbjuggu plaköt og kynntu Parísarferðina.  

Það er virkilega gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð. Ég þakka hópnum í ár fyrir góða og skemmtilega samveru! 

Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari. 

Myndir úr ferðinni má sjá hér