SkuggakosningarSvokölluð lýðræðisvika var haldin í mörgum framhaldsskólum landsins á vegum Ég kýs, dagana 9. til 12. október. Tilgangur verkefnisins er að efla kosningaáhuga ungs fólks og vekja athygli á hversu mikilvægt það er að ungir sem aldnir nýti kosningarétt sinn. Það var verkefni hvers framhaldsskóla fyrir sig að skipuleggja lýðræðisvikuna og allt sem henni við kom og tóku stjórnmálafræðinemendur í 4.F það að sér fyrir ML.

Ákveðið var að skipuleggja pallborðsumræður, sem voru haldnar 10. október. Flestum flokkum í framboði til Alþingis var boðið og mættu fulltrúar frá 9 flokkum á pallborðið. 4. bekkur sá einn um skipulag pallborðsins og mynduðu spurningalista í samræmi við áhuga nemenda skólans. Heitustu málefni sem brunnu á hugum nemenda í Menntaskólanum að Laugarvatni virtust vera stytting menntaskólans, hagur sauðfjárbænda og geðheilbrigði ungs fólks.

Mæting nemenda á pallborðið var stórgóð úr öllum bekkjum, ekki síður frá ólögráða nemendum. Krakkarnir sýndu þessu gríðarlegan áhuga og tóku virkan þátt í umræðum. Í lokin var opið fyrir spurningar úr sal og voru margir æstir að koma sinni spurningu á framfæri. Umræðunum lauk þó ekki með pallborðsumræðunum heldur safnaðist fólk saman í holinu fyrir framan matsalinn og ræddu við fulltrúa flokkanna lengi frameftir.

Lýðræðisvikan endaði svo á því að fimmtudaginn 12. október voru haldnar skuggakosningar. ML-ingar létu sig ekki vanta á kjörstað sem var opinn frá klukkan 9-16 innan skólans. 

Um 95% nemenda Menntaskólans nýttu sér þetta tækifæri til að prufa að kjósa og sjá hvernig Alþingiskosningar fara fram. 

Kjörstjórn skipuð fimm nemendum úr 4.F hélt utan um skuggakosningarnar og fylgdist með því að þær færu fram með hefðbundnum hætti, eins og um alvöru kjörstað væri að ræða. 

Þá voru margir kjósendur sem nýttu sér aðstoð kosningaprófs, sem í boði var á egkys.is, við endanlega ákvarðanatöku um hvað skyldi kjósa. Troðfullur kjörkassi var svo sendur í bæinn til talningar en niðurstöður úr skuggakosningunum verða birtar eftir að Alþingiskosningum lýkur þann 28. október. 

4.F er yfir sig stoltur af nemendum skólans og áhuganum sem þeir sýndu á málefnum lýðræðisvikunnar. Okkur finnst stjórnmál vera mikilvægt málefni sem allir ættu að kynna sér.

Við hvetjum alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn og kjósa!

Arndís Hildur og Brynhildur 4F