Strax eftir páska, eða þann 3. apríl, komu 33 franskir framhaldsskólanemar í heimsókn til okkar ásamt kennurum sínum. Þessi hópur vildi læra um jarðfræði Íslands og dvaldi hjá okkur í 9 daga. Á þeim tíma fóru þau í ferð um Gullna hringinn, í Hellisheiðar- og Ljósafossvirkjanir og í margar gönguferðir í nágrenni Laugarvatns. Þau tóku líka þátt í skólastarfinu, fóru í ratleik, í rúgbrauðsferð með Erlu og í fuglaskoðun með Tómasi G. Gunnarssyni í Rannsóknarsetri HÍ á Suðurlandi. Vinabekkur frakkanna, 2N, hitti þau oft utan kennslu og héldu þau t.d. kvöldvöku, íþróttamót og bíókvöld með mikilli prýði. Margir kennarar innan ML komu að dvöl frakkana með einum eða öðrum hætti. Gríma Guðmundsdóttir frönskukennari var þar einn hlekkur og var hópnum innan handar við eitt og annað. Frakkarnir voru mjög ánægð með ferðina og einni varð á orði að henni þætti Íslendingar bæði fallegt og hjartahlýtt fólk. Vissulega er Laugarvatn öðruvísi en 120.000 manna borgin sem þau koma frá (Perpignan) og þótti hópnum ansi friðsælt og útsýnið stórkostlegt. Við erum auðvitað sammála því og hlökkum til að heimsækja frönsku vini okkar í haust ef allt gengur að óskum.
Heiða Gehringer – náttúrufræðikennari og verkefnastjóri heimsóknarinnar
Hér eru margar myndir!