Gulleplið MobileLilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Menntaskólanum að Laugarvatni Gulleplið 2018, fimmtudaginn 3. maí síðastliðinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugarvatni. Við verðlaununum tóku skólaráðsfulltrúarnir Ingunn Ýr Scram og Þórný Þorsteinsdóttir ásamt Þórarni Guðna Helgasyni fulltrúa úr jafnréttisráði.

Halldór Páll Halldórsson stýrði dagskrá en kór ML undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur söng við athöfnina.

Í ár var áhersla Gulleplisins á jafnrétti, kynjafræði, kynfræði og kynheilbrigði en til þess að eiga möguleika á því að hreppa Eplið góða þarf að sækja um það með formlegum hætti.  Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnastjóri HeF og Freyja Rós Haraldsdóttir jafnréttisfulltrúi sáu um að senda inn umsókn fyrr í vetur með þessum ánægjulega árangri. Við viljum fullyrða að Menntaskólinn að Laugarvatni sé leiðandi í þessum málaflokkum, annars vegar vegna þess að skólinn var með þeim fyrstu þar sem kynjafræði er kennd sem skyldufag á fyrsta námsári og hins vegar vegna stöðu nemenda í skóla- og jafnréttisráði. Nemendur í stjórn MÍMIS hafa haft fulltrúa í skóla- og jafnréttisráði frá því að ráðið var stofnað 2014 en margir framhaldsskólar eru nú að stíga sín fyrstu skref í þessum málum og þá í formi hagsmunafulltrúa sem nemendur ML hafa haft aðgang að í fjögur ár. Ingunn Ýr, Þórný og Þórarinn Guðni héldu örstutt erindi um mikilvægi þessara málaflokka og hvaða áhrif jafnréttisstarf hefur á nemendur og almennan skólabrag. Voru þau bæði nemendum og skólanum í heild sinni til mikils sóma.

Sigríður Helga Steingrímsdóttir stallari tók við smokkasjálfssala sem Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir afhenti skólanum fyrir hönd Embættis landlæknis en ML er fyrsti framhaldsskólinn á landinu sem fær afhentan sjálfssala af þessu tagi. Allir framhaldsskólar á landinu munu fá sjálfssala afhentan á næstu dögum.

Nemendur Grunnskóla Bláskógabyggðar á Laugarvatni fengu að taka þátt í dagskránni sem var afar ánægjulegt.

Það verður spenanndi að sjá hver næstu skref verða í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli í Menntaskólanum að Laugarvatni enda nóg af verkefnum sem hægt er að vinna að, efla og styrkja með markvissum hætti til framtíðar.

Til hamingju ML!!

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, verkefnastjóri Hef í ML.

Myndir frá afhendingunni eru hér.